149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[16:50]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar eins og nokkrir aðrir þingmenn að koma aðeins inn á þetta ágæta mál á þeim forsendum að hér virðist við fyrstu sýn vera lítið, einfalt mál að ræða og allt í góðu með það. Mörgum kann að finnast það sjálfsagt mál. Eins og nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á eru öll mál sem eru til þess fallin að bæta réttindi og líf einhverra tiltekinna einstaklinga a.m.k. í mínum huga afar mikilvæg. Hér er í rauninni verið að taka eitt lítið skref í framhaldi af þeirri risastóru og mikilvægu ákvörðun sem tekin var 27. maí 2011 þegar táknmál var gert að opinberu máli á Íslandi og þar með ákveðið með formlegum hætti að þeir sem tala þetta mál sem sitt móðurmál og nota það sem sitt aðaltjáningartæki, eigi sama rétt og við hin á að beita því og nota í öllum sínum samskiptum.

Í lögunum frá 2011 er hins vegar ekkert komið inn á, alla vega ekki með beinum hætti þó að vísu sé það aðeins nefnt í nefndarálitinu, hvernig eigi síðan að hnýta alla endana, sem fylgja að sjálfsögðu þegar mál eins og þetta eru borin upp. Og það er kannski einn af þeim endum sem hnýttur er hér.

Það má kannski til sanns vegar færa, og ég velti því svolítið fyrir mér, hvort í leiðinni hefði átt að ræða það sérstaklega hvort það sama eigi ekki að gilda þegar um er að ræða flutning mála fyrir dómi á táknmáli. Því að við skulum, ágætu þingmenn, ekkert útiloka að til þess geti komið að við sem erum heyrandi og við sem notum íslenskuna, íslenskt talmál sem okkar móðurmál, getum þurft á túlkun að halda þegar að því kemur, sem verður vonandi einhvern tímann, að lögmaður fyrir einhverju dómstiginu kjósi að flytja mál sitt á táknmáli. Þá þarf að gera ráð fyrir því. Þá þarf að vera búið að hugsa fyrir þeim möguleika í dómnum og getur verið mikilvægt að tekin séu af öll tvímæli í lagatexta um það. Það má kannski segja að það væri þá næsta örskref í þessu máli.

Frú forseti. Jafn lítið og málið virðist vera er það samt mjög mikilvægt réttindamál. Það er mjög mikilvægt að þeir sem nota táknmál hafi þessi réttindi. Og það er mikilvægt í þessu heildarsamhengi að við lítum á réttindi fólks með fatlanir sem jafn sjálfsögð og réttindi okkar hinna og að við sem samfélag tökum á því að skilja það og skilja í alvöru af hverju það skiptir máli. Það er í rauninni mjög mikilvægt. Með því búum við í rauninni til samfélag margbreytileikans. Með því raungerum við þá tilfinningu okkar margra, ég ætla að leyfa mér að segja: vonandi flestra, að samfélag okkar eigi að vera fyrir okkur öll, að það eigi að vera aðgengilegt fyrir alla og að allir þættir samfélagsins eigi að vera fyrir alla.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það sem verið hefur í umræðunni að undanförnu, þ.e. mikilvægi dómstólanna sem einnar af stoðum ríkisvaldsins. Í því tilliti verður enn þá mikilvægara að allir þegnar landsins geti treyst því að þeir geti nálgast dómstólana á jafn fullnægjandi hátt og kostur er. Það er ánægjulegt að heyra það sem fram kom í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar áðan, að nefndasvið Alþingis hafi nú tekið þá stefnumótandi ákvörðun að þegar döff fólk þarf að koma fyrir nefndir eða aðrir einstaklingar sem kjósa að nota táknmál, sé tryggt að þau eigi kost á túlkun. Það er í því ljósi sem ég vil skoða þetta mál og það er í því ljósi sem ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju með þetta mál.

Ég var svo heppinn að geta tekið þátt í umræðunni um táknmál sem móðurmál hér fyrir að verða átta árum síðan. Það er mjög eftirminnilegt að hafa verið í þingsal á þeim tíma þegar þingpallar voru fullir af áhugasömu fólki sem sýndi á þeim tíma ánægju sína í verki — ekki með því að klappa eða hafa uppi hróp og köll, heldur með því að klappa á þann táknræna hátt sem döff fólk gerir, þ.e. að lyfta höndum og snúa þeim ótt og títt með útréttum fingrum. Þetta var alla vega í mínum huga afar eftirminnilegt að verða vitni að því. Hér erum við enn að stíga eitt skref í réttindabaráttu þessara þegna og er það vel.