149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

656. mál
[17:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018 sem mælir fyrir um að tvær tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins á sviði fjármálaþjónustu verði teknar upp í EES-samninginn.

Með tilskipun 2013/14/ESB eru gerðar breytingar á þremur tilskipunum á sviði sjóða. Það er tilskipunin um starfstengda eftirlaunasjóði, verðbréfasjóði og um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Tilskipunin kveður á um breyttar reglur hvað varðar notkun lánshæfismata hjá sjóðunum. Markmiðið með breytingunum er að sporna gegn oftrausti á lánshæfismati og þar með auka gæði fjárfestinga þeirra. Með tilskipun 2014/91/ESB eru gerðar breytingar á gildandi tilskipun um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði.

Tilskipuninni er ætlað að bæta upp þá veikleika sem komu í ljós í regluverki um lífeyrissjóði sem leitt hafa til eignataps fyrir fjárfesta. Með tilskipuninni er leitast við að auka öryggi fjárfesta verðbréfasjóða með þrenns konar hætti. Í fyrsta lagi með því að skýra ákvæði um hlutverk og ábyrgð vörsluaðila, í öðru lagi með setningu nýrra reglna um starfskjarakerfi lykilstarfsmanna og í þriðja lagi með samræmingu á lágmarksvaldheimildum eftirlitsaðila.

Innleiðing fyrrnefndrar tilskipunar kallar á lagabreytingar hér á landi. Gert er ráð fyrir að þær verði innleiddar með breytingum á lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, auk afleiddra breytinga. Stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp þess efnis á haustþingi 2019.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.