149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[17:49]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi Grænlendinga af því að ég þekki þar vel til og vil hvorki gera lítið úr þeirra vandamálum né hæfni til að eiga við þau. Ég held að það sé ekki mjög mikill munur á því tímabili sem er til umræðu annars vegar á Íslandi og Grænlandi þar sem alkóhól eða áfengi var virkilega í boði, 100–200 ár. Auðvitað drukku forfeður okkar sig fulla af einhverjum miði. Það kann að vera. En ég er að tala um samfélög sem voru á leiðinni til nútímans.

Hitt er svo annað mál að auðvitað væri æskilegt að við gætum minnkað neyslu áfengis í lítrum talið með einhverjum ráðum. Ég er ekki að segja að það þýði að við eigum að fara að loka sölustöðum en þar kæmu þá forvarnirnar fyrst og fremst inn og ýmislegt fleira. Ég nefndi hér að bæta samfélagið, bæta þau (Forseti hringir.) skilyrði sem leiða fólk út í misnotkun alkóhóls. (Forseti hringir.) Það er margt að gera en við hv. þingmaður erum of sammála til að við getum átt mjög uppbyggilegar samræður.