149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[17:57]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir sem svo að við viljum ekki leyfa fólki að ráða sér sjálft. En fólkið vill þetta ekki. Er það ekki málið? Teljum við ekki svo að allar kannanir sem tengjast þessu tiltekna frumvarpi sýni að andstaðan við það bara eykst? Og hvar er fagfólkið? Af hverju eigum við allt í einu ekki að hlusta á það?

Forræðishyggja. Ég kalla þetta bara samfélagsábyrgð. Svo getum við verið með þessi gildishlöðnu orð og skipst á þeim hérna og þá er ég forræðishyggjumaður. Ég er líka samfélagsábyrgðarmaður.

Við erum alveg sammála um að við eigum auðvitað að efla forvarnir. Það að ríkið skattleggi þessa vöru held ég að sé einfaldlega andsvar við vandamálunum sem tengjast þessari vöru. Þessi skattlagning leggst auðvitað illa á þá sem eru háðir áfengi. En það er ekki hægt að hafa áfengi á útsölu fyrir það fólk. Þetta er jú einfaldlega (Forseti hringir.) samfélagsvandamál sem við bregðumst við með þessum hætti.