149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, og svo eru þarna undir nokkrir aðrir lagabálkar, en hv. þingmenn kannast við málið eins og ég undir nafninu áfengi í búðir, brennivín í búðir og þess háttar. Það er það sem málið hefur verið kallað í almennri umræðu og kannski ekki að ófyrirsynju.

Það má segja að andinn í frumvarpinu sé að freista þess með þeim ráðum sem eru höfð uppi í frumvarpinu að gera áfengi að einhvers konar venjulegri neysluvöru, breyta hugsunarhættinum í samfélaginu yfir í það að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara. Það er ekki þannig. Hér er ekki á ferðinni skoðun mín eða hugmynd eða tilfinning eða vilji. Þetta eru staðreyndir máls.

Þrátt fyrir það sem sumir hv. þingmenn hafa farið fram með hér í ræðustól, að hófleg neysla áfengis sé bara af hinu góða, þá sýna nýlegar rannsóknir og ekki neinar smárannsóknir heldur nýlegar rannsóknir sem hafa verið gerðar aðallega á Vesturlöndum, að það er ekkert magn áfengisneyslu sem ekki veldur heilsutjóni. Ég veit að hv. þingmönnum þykir leiðinlegt að heyra þetta (Gripið fram í: Frekar.) og ég veit að það eru áreiðanlega einhverjir þarna úti sem hugsa með sér: Oh, er þetta virkilega svona? En þannig er það. Jafnvel neysla sem samsvarar einum barskammti eins og það er kallað, 10 ml af hreinum vínanda á dag eða 3–4 slíkir skammtar á viku, sem er ekki mikil neysla, það er hálfur bjór eða rétt rúmlega það, er ekki holl fyrir mann. Það er ekki hollt fyrir líkamann, getur kannski verið gott fyrir andlega líðan tímabundið þótt það sé það ekki til lengdar. Ég skal alveg játa það fyrir þingheimi að engu að síður hef ég persónulega og prívat valið það að nota áfengi en ég ætla ekki að reyna að halda því fram við nokkurn mann að ég geri það mér til heilsubótar. Ég mun mótmæla hverjum þeim sem kemur í ræðustól Alþingis og reynir að halda því fram að það sé einhver sérstakur lífselexír fólginn í alkóhóli. Það er ekki þannig.

Allar rannsóknir sem hafa verið gerðar, alla vega þær sem ég þekki, hafa sýnt að aukið framboð á áfengi leiðir til aukinnar neyslu í lítrum talið af hreinum vínanda. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vitnar í skýrslu sinni frá 2016 að mig minnir, frekar en 2013, í um 200 rannsóknir þessu til stuðnings. Það er sem sagt línulegt samband á milli aðgengis og neyslu. Öll samfélög sem hafa aukið aðgengi hafa lent í þeim vanda að neysla hefur aukist. Þá veltir maður fyrir sér hvaða vandamál frumvarp eins og þetta á að leysa.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson kom inn á athyglisverðan vinkil áðan, að þetta væri jákvætt vegna þess að við myndum fá meiri peninga í lýðheilsusjóð með einhverjum ákvæðum frumvarpsins. Ég vil beina því til þeirra þingmanna sem aðhyllast þá nálgun, þ.e. að fá meiri peninga til þeirra verkefna, að leggja frekar fram sérstakt frumvarp þar um og skoða hvort ekki sé vilji til þess á þingi að fara þá leið.

Rætt hefur verið í ræðustóli í dag að margir fagaðilar sem hafa tjáð sig um þetta mál í gegnum tíðina séu andvígir auknu aðgengi. Nú er hægt að ræða það, og ég held að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hafi komið inn á það áðan, að það eru í kringum 1.200 sölustaðir eða staðir á landinu þar sem hægt er að nálgast áfengi. Mín spurning er: Er þá á bætandi, er það ekki bara alveg nóg? Ég held að það sé nefnilega málið. Menn hafa í því sambandi komið með þessi klassísku frelsisrök, að það sé svo mikið frelsi í því fólgið að fá að kaupa sér áfengi hvar sem er og hvenær sem er og í hvaða verslun sem er o.s.frv. Ég tel að á nákvæmlega sama hátt og við höfum ekki farið þá leið til að mynda með tóbak — við höfum jafnt og þétt verið að stíga skref í þá átt að takmarka aðgengi að tóbaki — ættum við að fara sambærilega leið með áfengi.

Ég er nokkuð viss um, hv. þingmenn, að ef við stæðum frammi fyrir því í dag hvort það ætti að leyfa efni eins og tóbak í almennri neyslu, við skulum segja reyktóbak eða eitthvað þess háttar, myndum við taka mark á rannsóknum og segja: Nei, þetta er stórhættuleg vara, við skulum ekki leyfa hana. Ég held að sennilega flest okkar myndu gefa lítið fyrir þau rök að það væri eitthvert sérstakt frelsis-móment í því, fyrirgefðu, forseti, að nota enskuslettu, eitthvert sérstakt frelsisaugnablik að leyfa nýtt hættulegt efni. Ég held ekki. Við myndum ekki gera það.

Ég ræddi aðeins áðan um heilsufarsvandamál tengd alkóhóli. Það er svolítið vont að hluti af þeim vandamálum sem koma upp við aukna áfengisneyslu kemur fram á svo ofboðslega löngum tíma. Það kann að vera erfitt fyrir leikmenn að átta sig á því í einhverri sjónhendingu hvað er að gerast. Þá erum við svo heppin að það eru aðrar þjóðir í heiminum búnar að prófa þetta. Það er sem sagt búið að svara þessum spurningum: Lendum við nokkuð í sömu vandamálum og Mið-Evrópuþjóðirnar með skorpulifrina og lifrarkrabbameinið og allar brisbólgurnar og allt þetta dót? Erum við ekki einhvern veginn öðruvísi? Svarið er því miður nei. Við erum nákvæmlega eins. Því miður er það þegar farið að gerast að langvinn vandamál tengd áfengisneyslu eru farin að aukast á Íslandi. Tölur SÁÁ sem mörgum þingmönnum verður tíðrætt um benda beinlínis til þess að áfengisneysla og áfengistengd vandamál séu síður en svo á undanhaldi á Íslandi. Það er því miður ekki þannig.

Sumir þingmenn hafa seilst svo langt að bera áfengisneyslu saman við sykurneyslu og fituneyslu. Það er eiginlega ótrúlegt að menn skuli jafna þessu tvennu saman, neyslu á efni, sem er alkóhól, sem er beinlínis hættulegt, og setja það í sama flokk og efni eins og sykur eða glúkósa og fitu sem eru lífsnauðsynleg. Það er alveg ótrúlegt að jafna þessu tvennu saman. Auðvitað getur ofneysla á öllum efnum, nánast sama hvaða nafni þau nefnast, verið okkur hættuleg. Það er þannig með áfengi, tóbak og fleiri efni að jafnvel lítil neysla er okkur hættuleg.

Út frá umræðunni um þessa frelsistilfinningu sem mönnum er svo dýrmæt og þessa lýðræðisást sem menn flagga stundum þegar þeir eru komnir í algert rökþrot, þá velti ég fyrir mér: Af hverju leggja menn ekki bara fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta? Af hverju þora þingmenn það ekki? Af hverju þora þeir þingmenn sem leggja til þessar breytingar á áfengislöggjöfinni ekki að spyrja þjóðina? Ég get sagt ykkur það, hv. þingmenn. Þjóðin hefur margsagt í alls konar skoðanakönnunum í gegnum tíðina að hún hefur ekki nokkurn einasta áhuga á þessu. Það væri kannski leiðin að spyrja bara þjóðina, láta hana ákveða þetta. Almenningur í þessu landi skilur alveg ljómandi vel að þeir sem eru talsmenn þessa máls eru að leika sér að eldinum. Almenningur í landinu skilur það.

Í frumvarpinu er ekki bara verið að leggja til að það megi selja áfengi í verslunum. Það er líka lagt til að það megi auglýsa það. Ef maður jafnar þessu saman við annað sem við höfum bannað þá velti ég t.d. fyrir mér: Myndu flutningsmenn þessa frumvarps leggja til að við leyfðum auglýsingar á reyktóbaki t.d., væri það eðlilegt skref? Ég veit það ekki. Það væri áhugavert að heyra þeirra sjónarmið um það.

Ég á pínulítinn tíma eftir, herra forseti, og þá langar mig að ræða hvað er að gerast í þessum málum. Eftir að við jukum svona mikið áfengisneysluna, upp úr 1989 held ég að hafi örugglega verið, þá hefur dagdrykkja smátt og smátt aukist. Smátt og smátt. Það er þetta jákvæða mynstur sem allir eru að tala um, held ég, að fá sér smá á hverjum degi, þá er maður sko aldrei fullur. En dagdrykkja hefur aukist og fyrir vikið, ég leyfi mér alla vega að fullyrða það, erum við farin að sjá meiri og meiri vanda hjá eldra fólki, fleira og fleira eldra fólk, einkum eldri konur, sem leitar til heilbrigðisstofnana vegna áfengistengdra vandamála.

Ég á ofboðslega bágt með að sjá að þetta sé jákvæð þróun. Ég á mjög bágt með að sjá að frumvarp eins og þetta myndi snúa þeirri slæmu þróun við. Ég held að það myndi einmitt frekar auka á vandann. Ég vil biðja þingmenn þess lengstra orða að hugsa sig vandlega um áður en þeir láta sér koma til hugar að greiða götu máls eins og þessa í gegnum Alþingi Íslendinga. Það eru engin rök sem mæla með því, það er engin þörf á frumvarpinu. Það er ekki verið að auka frelsi eins eða neins nema þá kannski helst þeirra sem vilja selja áfengi og græða peninga á áfengissölu. Ég sé ekki að það sé næsta hjálparmeðal sem íslenska þjóðin þarf á að halda.