149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:27]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í umræðu sem þessari er alltaf slengt fram ýmsum fullyrðingum. Algeng fullyrðing er að aukið aðgengi muni auka verulega drykkju og afleiðingar drykkju. Þegar maður fer að rýna í einhverjar vísindalegar niðurstöður í þessu þá eru þær bara mjög takmarkaðar og ég hef aldrei séð neina alvörukönnun.

Svo horfir maður einhverjar staðreyndir á Íslandi þar sem aðgengi hefur aukist mjög mikið en drykkja ákveðinna hópa hefur samt minnkað. Það er því ekki sjálfgefið að samasemmerki sé þarna á milli.

En vegna þess að menn segja að aukið aðgengi muni auka einhverja drykkju þá sá ég nýlega frétt í virtum fjölmiðli þar sem nefnd var niðurstaða rannsóknar um hvaða þjóðir væru heilbrigðastar. Tvær þjóðir voru þar í efstu sætum, Spánn og Ítalía. (Forseti hringir.) Kannski hv. þingmaður geti upplýst okkur um hvernig aðgengið er að áfengi þar.