149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég horfi á þetta mál í heild sinni þá er mögulega verið að auka aðgengi. Samkvæmt stöðuskýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um áfengi og heilsu er bent á að ef aðgengi er aukið um 10%, þá eykst neysla um 4%. 10 á móti 4. Ef aðgengi er aukið eykur það neyslu og þá hefur það slæm áhrif. Eins og hv. þingmaður nefnir þá bendir þessi risastóra samanburðarrannsókn um áfengi og heilsu á það að jafnvel séu engin neðri mörk áfengisneyslu án þess að valda heilsuskaða.

Fyrir mér er fókusinn á þá sem verða fyrir verstum heilsuskaða og fjölskyldur þeirra. Það kemur einmitt fram í þessari skýrslu að við þurfum að fókusera á það. Er þingmaðurinn ekki sammála mér um að það ætti að vera sérstakur fókus á þá sem verst koma út úr áfengisneyslu og fjölskyldur þeirra?