149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér átti þingmaðurinn áreiðanlega við brennidepil. Jú, við eigum að horfa sérstaklega til þessa hóps og reyna með öllum ráðum að tryggja að sá hópur sem er í mestum vanda vegna áfengisneyslu fái þá þjónustu og þau úrræði sem duga til að hjálpa honum.

Aðalmálið er samt náttúrlega að grípa ekki til úrræða sem gætu fjölgað í þeim hópi. Ég óttast að þetta frumvarp eins og það er lagt fram gæti stuðlað að því að bæta í þann hóp sem ég og þingmaðurinn höfum einmitt mestar áhyggjur af. Það er fólkið sem er, við skulum segja í viku hverri, að leita sér aðstoðar og fær jafnvel ekki þá aðstoð sem það þarf. Á þann hóp ættum við að einblína og reyna að hjálpa honum.