149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir ræðuna. Ég efast ekkert um að hv. þingmaður meinar vel og vill að settir verði meiri peningar í forvarnir, eins og hann talar um. En mín nálgun á það er fyrst og fremst sú að reyna að gera það með beinum hætti, öðruvísi en að taka þá áhættu sem fylgir því að auka aðgengi.

Hv. þingmaðurinn kom inn á að ekki væri endilega verið að lengja tímann í afgreiðslu. Í a-lið 14. gr. frumvarpsins kemur fram að afgreiðslutími skuli ekki vera lengri en frá 11 að morgni til kl. 22 að kvöldi í smásölu. Í dag er áfengi ekki selt í smásölu á sunnudögum, en sums staðar á laugardögum. Þarna er að mínu viti verið að bæta í og ég er alveg sannfærður um að jafnvel þó að þetta standi með svipuðum hætti í lögunum núna væru sumir miklu líklegri til að nýta þann tíma sem væri í boði í lögunum vegna þess að þeir væru líklega með einhvern annan rekstur meðfram. Það er ekki farið fram á að þetta verði bara í sérverslunum heldur geri ég ráð fyrir að menn verði, sérstaklega úti á landi, með einhvern annan rekstur meðfram.

Ég held að þarna sé verið að taka óþarfa áhættu og ítreka það sem ég sagði í andsvari við hv. þingmann áðan að það væri nær að taka það litla skref að byrja á að bæta (Forseti hringir.) í lýðheilsusjóðinn áður en við förum í þetta skref.