149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:54]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður verður að virða mér það til vorkunnar að ég sé ekki tækifæri þarna. Ég sé ógnun í því að með auknu aðgengi fjölgum við neytendunum, aukum neysluna og herðum þar með á innflæðinu inn í veikasta hópinn. Það er það sem ég óttast.

Það hefur gefist ágætlega í íslensku samfélagi, til að mynda með tóbak, að vera með aðgangshindranir, sérstaklega fyrir yngsta hópinn hvað varðar sölu og aðgengi o.s.frv. Það hefur virkað mjög vel. Ef hægt er að draga ályktanir af því hvernig sé líklegt að íslenska þjóðin muni hugsa þarna myndi ég halda að það væru jafnvel einhver líkindi með því, þ.e. að ef við gerum vöruna sýnilegri og aukum aðgengi að henni muni fólk frekar neyta hennar.