149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:57]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir upplýsandi og góða ræðu. Þetta er áhugaverð umræða. Ég get ekki sagt að ég sé sérstakur fylgismaður þessa frumvarps þó að ég neyti áfengis eins og hv. þingmenn sem hafa komið hér upp og rætt um skaðsemi og þess háttar.

Það kemur fram í greinargerð frumvarpsins að vín sé orðið órjúfanlegur hluti gróskumikillar matarmenningar og innlend framleiðsla áfengis sé að festa sig í sessi. Til hvers þurfum við þá að breyta því? Þessi staða er uppi í dag. Ég veit ekki betur en að aðgengi að þessari vöru sé úti um allt land heilt yfir í nokkuð góðu lagi. Ríkissjóður hefur jú töluverðar tekjur af því að selja áfengi. Það kemur fram einnig í greinargerðinni að menn leggja það til að áfengisgjald sem renni til lýðheilsu fari úr 1% og hækki upp í 5. Er þá ekki miklu einfaldara fyrir okkur í þessum sal, ef við erum að tala um forvarnir og þess háttar, að við hækkum þá bara upp í 5% í staðinn fyrir að þurfa að afhenda versluninni þetta eftir til þess að geta hækkað upp í 5%?