149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara ekkert að gerast. Það er enginn að leggja það fram. Þetta mál er aftur á móti komið fram og það er kannski hægt að fá þessa auknu fjármuni í lýðheilsu, meðferðarúrræðin, forvarnirnar og svoleiðis, fimmfalda aukningu, og kannski fara upp í það sem SÁÁ er að kalla eftir, 10% skatturinn sem leggst á okkar veikasta fólk fari í að passa upp á það og þeirra fjölskyldur. Þetta er það sem er í boði núna. Þetta er það sem er á borðinu Við gætum klárað 1. umr., málið fer í nefndina og nefndin leggur til breytingar, tekur út ákveðna þætti sem eru óæskilegri, skilur eftir smáviðskiptafrelsi, það væri mögulega gerlegt. Þá er mjög heiðarlegt að skoða það, ef við hækkum mikið fjármuni í lýðheilsu, hvers við verðum bættari, hvaða áhrif það hefur til að minnka þann skaða sem neyslan veldur á móti því að mögulega muni aukið aðgengi auka neyslu lítillega.

Þegar kemur að aðgengi úti um landið allt þá ferðaðist ég um landið með forsætisnefnd síðasta sumar. Þar var einn staður með áfengisverslun sem var eiginlega inni í búðinni en hún var ekki opin nema held ég tvo tíma þann daginn eða það var kannski á veturna sem hún var opin tvo tíma. Það er mjög mismunandi aðgengi um land allt.