149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það eru margar sögur í íslenskum þjóðsögum þar sem segir frá draugum sem eru kveðnir niður en rísa jafnharðan upp aftur. Þetta frumvarp er eins og þessir draugar að mörgu leyti. Hér í den voru draugarnir sem risu alltaf upp aftur og aftur magnaðir upp af mjög öflugum seiðkörlum og galdramönnum. Þetta frumvarp hins vegar kemur hér aftur og aftur af því að það er trekkt upp af hagsmunum, gríðarlegum hagsmunum, viðskiptahagsmunum. Stórverslunin í landinu vill endilega gera sér féþúfu úr eymd annarra. Og það eru menn og konur í salnum sem eru til í að greiða leið þessara auðhringa til að gera það.

Í dag hafa komið fram hinar ótrúlegustu fullyrðingar, t.d. að meira aðgengi auki ekki drykkju. Við þurfum ekki rannsóknir, herra forseti, til að átta okkur á því að það er einmitt það sem gerist. Árið 1989 t.d. var áfengisneysla á hvern mann á Íslandi, þ.e. 16 ára og eldri, ef ég man rétt, eða 15 ára og eldri, í hreinum vínandalítrum talin í kringum 3,7 lítrar. Árið 2012 voru þeir 7. Breytingin var náttúrlega fyrst og fremst bjórinn. Árið 2018, það eru síðustu tölur sem við höfum, eru þessar tölur farnar að nálgast 9 lítra. Menn hafa verið að þrátta við þann sem hér stendur árum saman um að aukningin frá 3,7 upp í 7 sé túristunum að þakka eða kenna. Það er ekki rétt. En það getur vel verið að túristarnir eigi þessa síðustu 2, frá 7 upp í 9. Skiptir ekki öllu máli.

Þessu fylgir að þetta frumvarp núna er ekki eins og frumvörpin sem hafa komið fram hérna áður. Þau hafa verið svolítið eins og úlfur sem öskrar. Þetta er eins og úlfurinn sem át krítina. Nú er verið að gefa okkur þetta inn í teskeiðum. Nú á vín ekki að fara í stórmarkaði, það á að fara í litlar krúttlegar sérverslanir sem selja örugglega litla krúttlega osta frá Evrópusambandinu og enn þá krúttlegri pylsur frá Evrópusambandinu líka eftir ÍSAT-staðlinum að dæma sem fylgir þessu frumvarpi.

Málið er hins vegar það að við þurfum ekkert að rífast um það hvort aukið aðgengi auki neyslu. Það gerir það. Menn hafa bent á að áfengisverslunum ÁTVR hafi fjölgað mjög án þess að það hafi haft mjög mikil áhrif. Þetta er að vissu leyti rétt. Þeim hefur fjölgað í hinum dreifðu byggðum. En þar hafa menn aftur á móti lokað pósthúsum sem voru dreifistöðvar áfengis hér áður, eins og við vitum sem eldri erum, þannig að ekki er um að ræða aukninguna, eins og t.d. á höfuðborgarsvæðinu í útsölum hjá ÁTVR, síðustu tíu, tólf árin.

Ef þetta frumvarp verður að lögum er næsta víst að við munum fara í neyslu hreins vínanda á mann í 11 lítra. Í hvaða hópi erum við þá? Með Dönum. Með Bretum. Með Þjóðverjum. Ef við skoðum áhrif þessara 11 lítra á Dani og tökum þau niður sem nemur fólksfjölda á báðum stöðum myndi það þýða að 200 dauðsföll á hverju ári á Íslandi yrðu beint rakin til áfengis, 120 ný krabbameinstilfelli yrðu beint rakin til áfengis. Það er svo merkilegt að í Danmörku t.d. er neyslan mest ekki meðal ungmenna, ekki meðal ómenntaðra, drykkjan er mest hjá miðaldra og eldra, vel menntuðu fólki. Nýjasta áskorun danskra heilbrigðisyfirvalda til ungs fólks er svona: Ekki drekka eins og afi og amma. Danir eiga við vanda að etja, eins og við hér á Íslandi, sem er öldungadrykkja. Öldungadrykkja á Íslandi er mjög mikið vandamál. Móttökuskrifstofan hjá SÁÁ er full af miðaldra og eldra fólki á hverjum einasta degi. Heimilisaðstoð í Reykjavík segir skelfilegar sögur af eldri borgurum sem eru jafnvel ósjálfbjarga af áfengisneyslu.

Við erum einu sinni búin að gera tilraun. Hún hafði þessar afleiðingar. Við getum alveg gert þessa tilraun aftur, en þá vitum við alla vega afleiðingarnar. Árið 1989 þegar við leyfðum bjórinn voru menn kannski ekki alveg á eitt sáttir um það hvort afleiðingarnar yrðu eins og þær svo reyndust.

Hér einu sinni voru það alltaf vonarstjörnur íhaldsins sem fluttu þetta frumvarp. Þetta var svona manndómsvígsla, að þeir komu hingað og fluttu brennivínsfrumvarp einu sinni á þingmannsferlinum. En núna er ekki svo. Flutningsmaður frumvarpsins, að vísu kannski fyrrverandi vonarstjarna íhaldsins, er fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, sem talar fyrir þessu frumvarpi fyrstur allra. Eitt síðasta verkefni hans í ráðherrastóli sem félagsmálaráðherra fyrir tveimur árum að verða, var einmitt að veita verðlaun ungmennum sem voru að berjast á móti áfengisneyslu. Nú er búið að skipta um spólu og hann kemur hér og vill fá brennivín í búðir enn einu sinni. Hann sagðist hafa ógn af alþingismönnum, og fleiri hafa sagt það, sem vilja hafa vit fyrir öðrum. Ég er einn af þessum hræðilegu mönnum sem vilja hafa vit fyrir öðrum. Ég er á móti asbesti. Ég vil endilega að menn noti bílbelti. Ég vil að börn séu í bílstólum. Ég vil hafa vit fyrir fólki. Og við vitum að með þessu frumvarpi, ef við samþykkjum það eins og það er núna, þá munu þessi eftirköst, sem ég var að lýsa áðan, koma. Krabbameinstilfellin, ótímabæru dauðsföllin, hjarta- og æðasjúkdómar, þetta mun allt koma. Ef við viljum skrifa upp á það, þá bara gerum við það einhver.

Hv. þm. Brynjar Níelsson sagði hér áðan að tóbakssala væri óheft. Þetta er mesta þvæla. Hún er nefnilega ekki óheft. Hún var óheft hér áður, en núna er tóbak í lokuðum hirslum. Það þarf að biðja sérstaklega um það, eins og þegar maður fór í apótek í gamla daga og þurfti að biðja um eitthvað sérstaklega sem var ekki til sölu fremst í búðinni. Menn þurfa núna að hafa sig virkilega eftir því að kaupa tóbak. Hvaða áhrif hefur það haft? Það hefur minnkað tóbaksneyslu mjög mikið.

Síðan komu fram áðan rosalega skemmtilegar upplýsingar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að 10% aukning í sölustöðum leiði til 4% meiri aukningar í neyslu. Og ég fór að hugsa: Hvað ætli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segi ef við aukum framboðið ekki neitt? Hvað ætli það auki þá drykkju? Ætli það minnki hana ekki frekar miðað við þessar tölur? Ég hef trú á því.

Það er reyndar ein grein í þessu frumvarpi sem ég gæti hugsað mér að samþykkja. Ef frumvarpið væri bara þessi eina grein myndi ég líklega samþykkja það, þ.e. að auka það hlutfall af áfengisverði sem fer í lýðheilsu úr 1% upp í 4, 5 eða 10%. Ég er til í þetta. Málið er bara að það þarf ekki að einkavæða sölu áfengis til að gera þetta. Það meira að segja flækir málið að einkavæða áfengissölu og ætla svo að innheimta meiri skatta af áfenginu. Útsölustöðum fjölgar náttúrlega og það gerir innheimtuna miklu flóknari en hún er núna. Á sínum tíma, líklega þarþarþarsíðast þegar þetta mál var flutt lítt breytt, komu þrjár jákvæðar umsagnir. Ein var frá Samtökum verslunar og þjónustu, ef ég man rétt, ein frá Högum, ein var frá Verslunarráði Íslands, og þessir aðilar sögðu að þetta væri mjög snjallt. Þeir sögðu jafnframt: Það liggur í hlutarins eðli að ef verslanir taka að sér dreifingu á áfengi þá fara þær ekki að skila áfengisgjaldi þrisvar í viku eins og verslanir ÁTVR. Þær myndu bara skila þessu eins og virðisaukaskattstímabilið leyfir, á 60 daga fresti, plús 15, eitthvað svoleiðis. Hvað þýðir það? Það myndi draga fjárstreymi ríkissjóðs töluvert niður. Það eru innheimtir, ef ég man rétt, 18 milljarðar á ári, og skilað tvisvar í viku eins og nú er. En þá á allt í einu að fara með það í sex sinnum á ári. Það er alveg sama hvernig maður kemur að þessu.

Það er kannski eitt gott við það að fjölga útsölustöðum, það myndi hækka verð. Hækkun á verði er til að draga aðeins úr neyslunni. En gallinn er sá að hækkunin, þ.e. andvirði hækkunarinnar, myndi ekki fara í ríkissjóð heldur í vasa verslana. Ekki yrði það til þess að bæta mikið forvarnir og annað.

Ég vitnaði í hv. þm. Brynjar Níelsson áðan og ætla að gera það aftur af því að ég er alveg sammála honum um að áfengi kætir mann mikið í vissu magni (BN: Ekkert smá.) þó að timburmennirnir séu ekki skemmtilegir, þeir eru ekki geðbætandi. Ég veit alveg að Salómon sagði að hóflega drukkið vín gleddi mannsins hjarta, en hann var uppi á þeim tíma þegar menn urðu fertugir að meðaltali, ef ég man rétt, þannig að þeim var ekki of gott að fá sér aðeins á þeim tíma. En að því slepptu, þetta er grafalvarlegt mál. Þetta er ekki mál til að hafa í flimtingum. Hér gengur í salinn hv. flutningsmaður sem ég vitnaði til hér áðan og gleðst ég yfir nærveru hans

Það hefur ekkert komið fram, ekki nokkur skapaður hlutur í máli flutningsmanna sem hvetur menn til að samþykkja þetta frumvarp.

Það var farið ágætlega yfir lýðheilsuþáttinn áðan. Ég ætla í þessari fyrstu ræðu minni í þessu máli að einbeita mér svolítið að lýðheilsunni. Á þeim 30 árum sem liðin eru síðan bjórinn var leyfður á Íslandi og neyslan farið úr 3,7 lítrum upp í að verða 9 lítrar, erum við farin að sjá alls konar sjúkdóma sem við sáum ekki áður. Hérna er farin að sjást skorpulifur og svo er brisbólga, sem dregur t.d. fjölda Dana til dauða á hverju ári, farin að aukast hérna. Mönnum verður svo tíðrætt um þessa hófdrykkju. Drykkjumenningin er allt önnur hér nú en var þegar menn gengu með vodkapela í buxnastrengnum. Núna er drykkjumenningin allt önnur. En samt hefur heimilisofbeldi snaraukist. Það er enn þá verið að rota menn í Austurstrætinu og hérna úti á velli. (BN: … minna?) Nei, það er nefnilega miklu meira. Það er nefnilega miklu fleiri ofbeldisglæpir í Reykjavík núna en hefur verið og þeir fara stigvaxandi. Ég ráðlegg hv. þm. Brynjari Níelssyni, sem kallar hér frammí, að lesa skýrslu ríkislögreglustjóra. Þar fær hann þetta svart á hvítu. Ekki hefur hófdrykkjan hjálpað okkur þar.

Það sem meira er, við sem eigum leið í gegnum miðbæinn á hverjum virkum degi, hverju virku kvöldi, sjáum að allir veitingastaðir eru fullir. En helgarfylleríið er nákvæmlega það sama. Þessi hófdrykkja og dagdrykkja, eitt rauðvínsglas á dag eða tíu eða hvað það er, hefur bæst við helgarfylleríið. Það er bara svo einfalt. Bæst við. Það er ekki að ófyrirsynju, þessir lítrar sem ég var að telja upp áðan, koma einhvers staðar niður. Það er vegna þess að þetta er hrein viðbót. Annað er alger firra. Við þurfum ekki einu sinni rannsóknir vegna þess að tölurnar segja okkur þetta. Hagstofa Íslands segir, með leyfi forseta: „Áfengisneysla hefur aukist um 73% milli áranna 1980 og 2016.“ 73%. Og það verður náttúrlega sprenging 1989 þegar bjórinn var leyfður. Og af því að menn segja að það sé ekki bara aðgengið sem geri þetta, hvar er þá aukningin mest í sölunni? Söluaukningin er ekki í þessum útibúum [Kliður í þingsal.] ÁTVR úti á landi sem tóku við af pósthúsunum. Hún er ekki þar. Hún er hér í Reykjavík. Hún er á höfuðborgarsvæðinu. Hún er í þessari margföldu — það væri ágætt að fá hljóð — fjölgun vínveitingastaða. Þar er söluaukningin. Það sýnir okkur að aukið aðgengi eykur neyslu, sem eykur lýðheilsusjúkdóma.

Hér kom ágætisstatistík fram áðan hjá ágætum þingmanni um að það væri lítill hluti „neytenda“ sem stæði undir mestri neyslu á áfengi. Það mun ekkert breytast þótt við færum þetta í hendur einkaaðila að hluta og þá þess heldur, vegna þess að með auknu framboði þá stækkum við þennan hóp. Það fjölgar í honum. Það er ekki einn einasti aðili sem ég hef enn þá séð, nema Hagar, Verslunarráð og Samtök verslunar og þjónustu, sem hafa mælt með því að áfengi fari í verslanir, almennar verslanir, ekki nokkur einasti aðili. Við getum talið alla upp, landlækni, Sálfræðingafélagið, Barnaheill. Allir segja: Ekki gera þetta. Við eigum að hlusta á sérfræðinga, herra forseti.