149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki heyrt spurninguna en hún sneri að því hvort það væri ástæða til að fara sömu leið með áfengi og við gerðum með tóbakið á sínum tíma.

Lýðheilsuáhrifin. Ég er sammála. Það er einmitt ástæðan fyrir því, virðulegur forseti, að ég velti þessum hlutum fyrir mér. Þó að mér finnist margt mjög rangt við það að hið opinbera sé að selja vöru eins og áfengi og með einkasölu á því, þá velti ég fyrir mér lýðheilsuáhrifunum. Þegar hv. þingmaður fer yfir tölur um áfengismagn á hvern einstakling þá spyr ég líka: Hefur þar ekki áhrif mikil fjölgun ferðamanna hér á landi? Ég velti fyrir mér hvaða rök eru fyrir því að ef ég kaupi vín í glasi þá kaupi ég það af einkaaðila hér einhvers staðar í kringum okkur, en ef ég kaupi vín í flösku þá þarf ég að gera það í verslun sem rekin er af hinu opinbera. Er stórkostlegur (Forseti hringir.) munur á þessu? Og hefur það í alvöru einhver áhrif á lýðheilsuna þegar ég kaupi (Forseti hringir.) vín í flösku að ég sé að kaupa það af verslun sem rekin er af hinu opinbera?