149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég get ekki sagt að ég gleðjist sérstaklega yfir því að þetta mál sé komið hér enn eina ferðina á dagskrá. Að enn eina ferðina skulum við þurfa að ræða þetta mál hér þrátt fyrir að í gegnum tíðina hafi komið umsagnir sem benda til þess að málið njóti ekki hylli þeirra sem um það hafa fjallað. Þegar ég tala um að „þurfa að ræða málið“ er það ekki vegna þess að ég sé nauðbeygð hér uppi í pontu heldur að það að mál er sett aftur og aftur á dagskrá, ár eftir ár, sem hefur margoft fengið umsagnir sem hafa að mestu leyti verið neikvæðar.

Þjóðin hefur líka sagt ákveðna hluti. Það má því sannarlega segja að umræða um áfengi og brennivín í búðir hafi fengið gífurlega mikið umtal í samfélaginu alveg síðan um síðustu aldamót. Líklega státa fá þingmannafrumvörp af slíkri umfjöllun og það sem hér er undir. Umræða þeirra um málið sem lagt hafa það fram í gegnum tíðina einkennist gjarnan af tali um einstaklingsfrelsi og þeim sjálfsagða rétti að geta keypt áfengi í matvöruverslunum eða öðrum sérverslunum, eins og hér er lagt til, enda sé það víða leyft og hafi ekki í för með sér neinn sérstakan skaða.

Skoðanir eru gríðarlega skiptar og auðvitað eigum við að skoða öll rök og reyna að nálgast málið án fordóma, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi áðan. En þá vísa ég enn og aftur til umsagna sem um málið hafa komið. Málið hefur tekið ákveðnum breytingum í gegnum tíðina, ég ætla ekki að draga úr því, en í grunninn er það það sama. Ég rifjaði upp ágæta grein eftir Róbert Haraldsson heimspeking sem hann skrifaði árið 2015 þegar málið var til umfjöllunar á þeim tíma. Hann velti upp röksemdum með og á móti breytingu eins og hér er m.a. lögð til.

Mér finnst það enn vera við lýði þar sem hann sagði þá og get tekið undir það að áfengisstefnan sem rekin er á Íslandi sé ágætlega heppnuð tilraun eða framkvæmd til að sætta ólík sjónarmið og andstæða hagsmuni, þ.e. til að finna jafnvægi á milli einstaklingsfrelsis og lýðheilsusjónarmiða. Því spyr maður sig: Af hverju þurfa þingmenn ár eftir ár, og ég segi það enn og aftur, að ganga gegn margítrekuðum skoðanakönnunum þar sem stór hluti þjóðarinnar segist ekki vilja breytingar á þessu formi? Það þarf ekkert annað en að horfa til þeirra umsagna sem um málið hafa komið í gegnum tíðina og þegar fólk hefur verið spurt á hinum ýmsu miðlum. Einhvern veginn er niðurstaðan ævinlega sú að stór hluti þjóðarinnar sem þar hefur tekið þátt vill þetta ekki.

Að mínu mati er þetta frumvarp samið á forsendum verslunarinnar. Hagsmunir hennar eru settir í forgang á þeim fölsku forsendum, að mínu mati, að þetta sé neytendum sérstaklega mikið til góðs. Því spyr ég enn og aftur: Af hverju þetta mál? Hvað er að? Hvert er vandamálið sem við þurfum að leysa með því að setja nýja löggjöf? Er sérstakt vandamál að hafa þetta með þeim hætti sem er í dag? Ég held að við sem löggjafi eigum að horfast í augu við að frumvörp og þingsályktunartillögur sem við vinnum með og spyrja okkur: Hver er þörf samfélagsins fyrir nákvæmlega þá réttarbót sem við erum að fjalla um hverju sinni?

Hver er þörfin ef fólk telur þetta vera réttarbót? Hvert er vandamálið sem við horfumst í augu við? Mér finnst að flutningsmenn verði að færa rök fyrir því að málið sé til bóta, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson nefndi hér áðan, og ekki bara að einu leyti. Það hlýtur að þurfa að ná yfir allt saman.

Mér finnast rökin hafa verið veik í gegnum tíðina vegna þess að þau hafa ekki að mínu mati verið studd með nægilega faglegum rökum eða þekkingu í nægilega ríkum mæli. Sérstaklega ekki hvað varðar þá alþjóðasamninga sem við erum aðilar að eða með vísunum í þær stofnanir í samfélaginu sem best eiga að þekkja til meðferðar vegna áfengis- og vímuefnavanda og áhrifanna á fjölskyldur og samfélög. Getum við leyft okkur að horfa fram hjá vísindum sem segja að verði þetta að veruleika muni áfengisneysla aukast? Það er reynsla annarra þjóða, tölfræðin segir okkur það.

Ég spyr mig hvort flutningsmenn telji að við Íslendingar séum eitthvað öðruvísi en aðrar þjóðir þegar kemur að þessu. Er fólk tilbúið til að segja: Ókei, mér finnst það bara fínt fyrir samfélag okkar að þar sé drukkið svolítið meira áfengi? — Ekki ég. Mér finnst þetta mál alls ekki snúast um frelsi. Mér finnst það snúast um að draga úr veseni fyrir þá sem vilja kaupa sér bús. Það er ekkert skert frelsi ef hver sem er, sem hefur aldur til, getur farið og keypt sér brennivín sex daga vikunnar í áfengisversluninni, og oftar ef fólk fer á veitinga- og skemmtistaði. Þeir sem vilja ná sér í vín geta gert það ef þeir vilja. Það þarf ekki fjölbreyttara rekstrarform, eins og gjarnan er talað um.

Nei, hæstv. forseti. Ég segi það aftur: Mér virðast það fyrst og fremst vera hagsmunir verslunarinnar sem muni njóta góðs af þessu, enda hefur tölfræðin líka sýnt að auknar líkur eru á að ofan í matarkörfuna læðist eins og ein rauðvínsflaska, kannski eitthvað af ostum, sem er þá gott fyrir verslunina. Við sjáum sem betur fer, og það er eitt af því sem er jákvætt, að það er að verða sífellt algengara að fólk velji að drekka ekki áfengi. Þannig að rökin um að þetta sé í takt við nútímann og breyttar aðstæður í samfélaginu finnast mér ekki halda. Við hljótum að vera sammála því að þróunin eigi ekki að vera í áttina að aukinni áfengisneyslu.

Það er líka staðreynd að það eru fáar vörur sem valda jafn víðtækum skaða og áfengi, sem bitnar á svo mörgum og hefur víðtækar afleiðingar ef um óhóflega neyslu er að ræða. Stór hluti kostnaðar sem fellur til í heilbrigðiskerfinu er vegna áfengisneyslu. Það verður líka aukinn kostnaður vegna löggæslu. Eins og ég sagði áðan held ég að umsagnir í gegnum tíðina hafi sýnt að fólk er ekki tilbúið að einn hirði gróðann en annar sitji uppi með kostnaðinn vegna afleiðinganna.

Þær breytingar sem kunna að verða á sölufyrirkomulagi áfengis eru álitamál en snerta hvert mannsbarn í þessu landi. Þess vegna segi ég aftur að það er mikilvægt að þær ákvarðanir sem teknar verða byggi á upplýstri umræðu á faglegum rökum. Þau er ekki að finna í þessu frumvarpi. Ég tel að það muni hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélag okkar ef þetta frumvarp verður að lögum. Við þurfum að horfa til raka og vísindalegra gagna. Við getum ekki sagt: Ég hef ekki trú á því eða þessu eða hinu, heldur verða röksemdirnar að vera undirbyggðar.

Eins og ég sagði áðan er það staðreynd að aukin áfengisneysla, vímuefnaneysla, af hvaða tagi sem er, hefur í för með sér fjölgun ofbeldisglæpa. Það er ekki bara það að þeir séu komnir upp á yfirborðið eða bara vegna þess að lögreglan fylgist betur með eða eitthvað slíkt, það er raunveruleg aukning. Við þekkjum alveg þá hluti. Það eru meiri óspektir, það er meira eignatjón, það verður meira um útköll lögreglu o.s.frv., slys á fólki, allir þessir fylgifiskar áfengisneyslunnar. Mér finnst þetta fyrst og fremst snúast um viðskiptaauka og virðisauka fyrir verslunina í landinu og að gera það þægilegra fyrir þá sem vilja kaupa sér áfengi.

Norræna módelið þegar kemur að sölu áfengis hefur almennt snúist um háa skatta, ríkisrekstur, takmarkað aðgengi og takmörkun á efnahagslegum hagsmunum. Við getum velt því fyrir okkur hvort hægt sé að græða á sölu vímuefna af öðrum toga. Ýmislegt kemur fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um áfengisneyslu á Norðurlöndunum, sem könnuð hefur verið, eins og við þekkjum og höfum rætt hér margoft í gegnum tíðina þegar þetta mál hefur verið á dagskrá. Varðandi löggjöf Norðurlandanna um áfengi og sölu áfengis eru hér nokkrar staðreyndir.

Það eru sterk tengsl á milli skatta og takmarkana á áfengisauglýsingum annars vegar og heildaráfengisneyslu samfélagsins og t.d. tíðni skorpulifrar. Hér hefur áður verið viðrað að fjölda krabbameina megi rekja beint til áfengisneyslu. Því hærri sem skattarnir eru og því meiri sem takmarkanir á auglýsingum á áfengi eru því minni er neysla áfengis og lægri tíðni skorpulifrar. Það er staðreynd. Þetta eru bara tölur.

Það eru líka tengsl milli opnunartíma verslana sem selja áfengi og áfengisneyslu, þannig að styttri opnunartími þýðir minni neyslu. Almenna niðurstaðan er sú að því strangari sem reglurnar eru, því minni eru almenn áhrif áfengisneyslu á einstaklinga og samfélag.

Rannsóknir hafa sýnt að aukin velmegun, sérstaklega á Norðurlöndunum, og miklar breytingar í efnahagslegu og fjárhagslegu aðgengi hefur leitt til mikillar aukningar áfengistengdra vandamála. Þannig að það er eitt og annað sem hér er undir.

Samkvæmt breskri rannsókn er áfengið langskaðlegasta vímuefnið, það fékk 72 stig af 100. Heróín kom þar á eftir með 55 stig af 100. Öll rök, allar skýrslur, hníga til þess að það sé ekki skynsamleg ákvörðun að auka aðgengi að áfengi. Þegar umsagnir verslunar og þjónustu og annað slíkt er skoðað sýnist mér að það séu fyrst og fremst þeirra eigin hagsmunir sem þar eru undir.

Við getum talað um einstaklingsfrelsið sem einn af hornsteinum íslensks samfélags. Auðvitað eru það líka reglur samfélagsins að ekki á að ganga á frelsi annarra.

Mér finnst of margt hér undir til þess að við ræðum það ekki málefnalega. Ég tel að það sé málefnalegt að vísa til rannsókna sem gerðar hafa verið, ekki bara til einnar, tveggja eða þriggja heldur mjög margra. Þeir sem færa rök fyrir því að þetta eigi að vera svona stilla ekki upp rannsóknum sem sýna fram á að þetta sé best.

Virðulegi forseti. Ræðumaðurinn á undan mér og fleiri hafa talað í þá átt að nú eigi að auka gríðarlega framlög til forvarna með þessu frumvarpi. Það hefur komið fram hér og kom fram í andsvörum fyrr í dag. Það er ekki svo, það er ekkert í hendi hvað það varðar, það er bara talað um það. Síðast þegar frumvarpið var lagt fram var lögð til breyting, að hlutfallið yrði hækkað og talað um aukið fjármagn í forvarnir og fræðslu til eflingar lýðheilsu. Með leyfi forseta:

„Við fyrri framlagningar frumvarpsins var lögð til sú breyting að í stað þess að 1% af áfengisgjaldi rynni í lýðheilsusjóð yrði hlutfallið hækkað í 5%. Síðastliðið vor var ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur breytt og sú framkvæmd gerð að meginreglu að málefni fengju beina úthlutun af fjárlögum í stað þess að þeim væru markaðar tekjur. Var 7. gr. laga um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, sem kvað á um hvaða hlutfall áfengisgjalds skyldi renna í lýðheilsusjóð, felld brott í þessu skyni. Viðeigandi breyting hefur verið gerð á þessu frumvarpi en flutningsmenn þess leggja áherslu á að samhliða þeirri breytingu sem felst í frumvarpinu verði framlög af fjárlögum til lýðheilsusjóðs stórlega aukin með það að markmiði að efla fræðslu og meðferðarúrræði til að sporna í meira mæli en nú er gert við skaðlegri, óhóflegri áfengisdrykkju.“

Hér er sem sagt ekki lögð til bein breyting. Það er ekki sagt „sem samsvarar u.þ.b. tiltekinni fjárhæð eða tiltekinni prósentu af seldum eða innheimtum sköttum“ eða öðru slíku, heldur eru þetta bara tilmæli. Þess vegna finnst mér það svolítið hjóm þegar menn eru að skreyta sig með því að hér sé um að ræða klárlega aukin framlög til lýðheilsu.