149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Það er nefnilega svo mikilvægt að það komi fram, eins og hv. þingmaður sagði réttilega, að þetta er á forsendum verslunarinnar. Þetta er fyrst og fremst á forsendum verslunarinnar. (Gripið fram í.) Þetta er ekki vegna þess að neytendur njóti þess eitthvað sérstaklega ef fyrirkomulagið breytist. (Gripið fram í.) Það er fyrst og fremst það að verslunin þarf að taka inn gróðann sem af þessu hefst og ríkið að sitja uppi með skaðann sem þarf að mæta vegna þeirra sem eru í ofneyslu. Og það er bara fínt. Það kemur þá fram að það er svoleiðis og hv. þingmanni finnst það vera í lagi að hafa það svoleiðis. Ég nefndi það í minni ræðu. Sumum finnst það kannski allt í lagi. Mér finnst það ekki og segi enn og aftur með þessa litlu sem gjarnan er vísað til, það er spurning: Getum við lagfært það innan þeirra reglna sem við erum með í dag, innan þeirra laga sem við erum með í dag? Þurfum við að setja ný? Og þarf þetta að fara í hendurnar á einkageiranum til þess? Það held ég ekki.