149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[22:00]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir andsvarið. Já, ég tel alveg tvímælalaust að það myndi breyta aðgengi að áfengi á landsbyggðinni ef þetta frumvarp færi í gegn. Það yrði kannski þannig að menn þyrftu að fara að panta í póstkröfu aftur eða eitthvað slíkt. Ég veit það ekki. Ég man nú eftir þeirri menningu og það var viss menning.

Þegar við fjöllum um mál á hinu háa Alþingi gleymist oft landsbyggðin. Stór-Reykjavíkursvæðið og landsbyggðin verða andstæðir pólar að vissu leyti. Ég er alveg á því að þetta myndi gjörbreytast. Ég get eiginlega ekki séð neitt gagn í því og hvernig væri hægt að koma á móts við þá breytingu. Það yrði alla vega mun fábreyttara því að öll svona kaupmennska þarf náttúrlega að skila einhverjum afgangi ef hún er á hendi þeirra sem reka þetta sjálfir. Þetta myndi gjörbreyta landsbyggðarverslun í áfengissölu.