149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:13]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að taka undir með hæstv. ráðherra með að sannarlega er það sem betur fer þannig að flestir standa sig vel. Flestir gera vel. En það er þetta með skussana. Við höfum svolítið gott dæmi um alvarlegar afleiðingar þess þegar eftirlitsstofnanir voru veikar og það er það sem maður óttast í þessu samhengi líka. Ef við stöndum okkur ekki, ef við stöndum ekki með eftirlitsstofnunum munu fleiri ganga á lagið og valda vandræðum.

Þess vegna velti ég líka fyrir mér eflingu Fiskistofu. Nú förum við að ræða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í næstu viku og þó að það sé að sjálfsögðu kannski ekki beint tengt þessu máli langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi lagt áherslu á það í vinnu sinni að styrkja einmitt Fiskistofu í fjármálaáætlun.

Ég lýsi mig tilbúna til að vinna með honum að því. Það er alveg greinilegt, bæði í þessu máli og eins í tengslum við umræðu um fiskeldismál, að Fiskistofa telur sig, það kemur vel fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, vera vanfjármagnaða og vanbúna til að sinna a.m.k. hluta verkefna sinna. Okkur ber skylda til að tryggja framlög til Fiskistofu í áætlanagerð ríkisins, eins og til að mynda fjármálaáætlun sem við ræðum í næstu viku.