149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur ákafann í máli hv. þingmanns í því að bregðast við og deili því að mörgu leyti. Í mínum huga er þetta töluvert stærra mál. Alla jafna gengur stofnunin bærilega. Hins vegar eru ýmis atriði varðandi framkvæmd þeirra laga sem stofnunin vinnur eftir sem ég tel mjög brýnt að verði brugðist við og ráðuneytið er að sjálfsögðu að vinna í þeim þáttum. Án þess að ég sé að upplýsa um einstaka þætti þess og hvað þar er við að fást er hægt að grípa inn í og er brugðist við því eftir efnum og aðstæðum, svo að það sé sagt, af hálfu ráðuneytisins.

En stóra myndin sem er verið að draga upp hérna er að það er ekki samræmi á milli löggjafarinnar okkar — hún er ekki alveg fullkomin — og þess sem Fiskistofa í þessu tilviki getur í rauninni framkvæmt. Það þarf einhvern veginn að stilla þá þætti saman í heildarsamhengi að minni hyggju áður en maður fer inn í einstaka tiltekna þætti varðandi eftirlitið. Það er miklu flóknara mál en svo að maður geti gripið einhvern einn þátt þess út. Ég tel að við þurfum að skoða þetta heildstætt. Ef ég á að nefna eitthvert eitt atriði sem væri hægt að ganga til og skoða sérstaklega væru það þeir þættir sem lúta beinlínis að því sem nefnt er í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem snúa að yfirstjórn og eftirlitshlutverki ráðuneytisins gagnvart viðkomandi stofnun. Það væri það einfaldasta sem hægt væri að fóta sig á í því áliti sem þarna liggur fyrir.