149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:58]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir orð hennar. Ég ætla reyndar að vitna í frétt RÚV, með leyfi forseta:

„Í stjórnsýsluúttektinni kemur fram að það hafi verið mat Fiskistofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að óvissuástand sem skapaðist í júní 2014 við tilkynningu þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um flutninginn hafi haft mikil áhrif á daglega starfsemi stofnunarinnar.“

Síðan segir:

„Í ársskýrslu Fiskistofu 2015 kom fram að til að verja kjarnastarfsemi hefði þurft að draga úr annarri starfsemi, svo sem gæða-, umbóta- og þróunarstarfi. Undirmönnun hefði haft áhrif á getu stofnunarinnar til að sinna lögbundnum skyldum sínum …“

Ég er næsta viss um að orsakasamhengið er ansi ljóst hérna, en það er svo sem búið og gert.

Mig langaði í seinni andmælum að athuga hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á því þegar við erum að reyna að sameinast um þetta verkefni, að búa svo í haginn að fólk geti haft búsetu hringinn í kringum landið, vegna þess að við byggjum upp betra samfélag þannig. Það er hægt að gera á ýmsa vegu. Hægt er að tryggja að nútímatækni sé nýtt á þann veg að fólk geti unnið störfin hvar sem er, t.d. í gegnum háhraðanet — við hv. þingmaður sitjum saman í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem verið er að ræða þá hluti.

Er hv. þingmaður sammála mér í því að það væri vænlegri leið en sú að flytja með boðvaldi heilu stofnanirnar frá þéttbýli eða frá höfuðborgarsvæðinu eða á milli staða, það þarf svo sem ekki að vera bara héðan, þ.e. að flytja þær fýsískt? Betra sé að nýta tæknina og búa til slíka umgjörð að fólk geti starfað heiman frá sér eða hvar sem það kýs að búa frekar en að flytja heilu stofnanirnar landsbyggðanna á milli?