149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[17:24]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Við ræðum skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu. Við ræðum einnig nefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og nefndarálit atvinnuveganefndar um skýrsluna. Þar sem ég sit í báðum þeim hv. þingnefndum er mér málið skylt þegar fjallað er um það á báðum stöðum. Ég ætla hins vegar ekki að lengja umræðuna neitt sérstaklega mikið. Nefndarálitin tala mjög sínu máli og er annað í það minnsta mjög ítarlegt. Kannski er það uppruni minn í sagnfræði eða blaðamennsku sem veldur því að ég leita í frumheimildina sem er að þessu sinni umrædd skýrsla Ríkisendurskoðunar.

Fyrir mér segir hún allt sem segja þarf. Hér hafa margir hv. þingmenn farið ágætlega yfir efni hennar. Það eru fjórar tillögur til úrbóta sem Ríkisendurskoðun leggur sérstaklega áherslu á. Mér finnst að við eigum að hlusta sérstaklega eftir þeim tillögum Ríkisendurskoðunar. Þar er talað um eftirlit með framkvæmd laga, eftirlit með vigtun, eftirlit með brottkasti og svo er það eitt af því sem ég ætla að gera að sérstöku umtalsefni, þ.e. eftirlit með samþjöppun aflaheimilda.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur stofnað verkefnishóp til að fara yfir þetta, samráðshóp, og boðaði í ágætri ræðu sinni að niðurstöðu úr þeirri vinnu er að vænta í haust. Ég skil vel að fólk vilji grípa skjótt til aðgerða. Hafandi fylgst með stjórnkerfinu lengi verð ég þó að segja að mér finnst þetta nokkuð skjót vinnubrögð. Á næsta löggjafarþingi vonast ég til þess að við getum verið að fjalla um lög, frumvörp og tillögur til að bæta stöðuna.

Það sem snýr fyrst og fremst að því sem ég vildi ræða, og er kannski umræðan sem við þurfum fyrst og fremst að eiga í þessum þingsal og í nefndarvinnu að mínu mati, er fjórða tillagan, eftirlit með samþjöppun aflaheimilda. Eftirlit með brottkasti, þar eru ræddar ýmsar leiðir, eins og myndavélaeftirlit og fleira slíkt, fjarstýrð loftför, vigtunin. Þetta eru tæknileg úrlausnarefni sem ég mun bíða tillagna um frá þeim sem betur þekkja til þeirra mála en ég áður en ég fer betur ofan í þau.

Styrkja þarf eftirlit með framkvæmd laganna um stjórn fiskveiða og tryggja þarf nauðsynleg úrræði, aðföng, svo að unnt sé að sinna eftirliti með markvissum og árangursríkum hætti. Þetta er lykilatriðið að mati Ríkisendurskoðunar og við þurfum að einhenda okkur í það verk og eftirlit með samþjöppun aflaheimilda.

Forseti. Það kerfi sem við höfum komið á þegar kemur að aflaheimildum byggir á þeim grundvallarstoðum að enginn einn aðili má eiga meira en 12% af aflaheimildum. Það er lykilatriði. Við getum rætt um hvort það sé jafnvel of mikið, það ætti að lækka það þak. En grundvallaratriði til að hægt sé að hafa það kerfi virkt er að þakið haldi. Þegar Ríkisendurskoðun segir okkur að það þurfi að skoða þetta, styrkja, jafnvel skerpa á lögum, eigum við að hlusta.