149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með þetta mál í sal Alþingis. Ég fagna því, þetta er gott mál. Þetta er frjálslynt mál og mun hafa jákvæðar afleiðingar ef fram fer sem horfir.

En ég er með nokkrar spurningar. Ráðherra kom vissulega inn á mikilvægi þess að þau sveitarfélög sem kjósa að nýta sér þetta svigrúm, þetta úrræði, hefðu með sér óformlegt eða formlegt, eftir atvikum, samstarf við lögregluna. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að í Noregi hafi verið gert slíkt óformlegt samkomulag þannig að lögreglumenn eru hvattir til að keppast ekki við að stöðva einstaklinga, eins og orðalagið er, sem eru á leið í neyslurými þó að þeir geti metið það hverju sinni. Vissulega er mikilvægt að lögreglan hafi það mat á sinni hendi.

Ég velti því upp hvort það sé ekki ástæða til að ganga lengra og vera með skýr skilaboð því að ég held að ekkert okkar sem erum jákvæð fyrir þessu, og allra síst þeir sem standa fyrir því, heilbrigðisyfirvöld, sjái fyrir sér að einstaklingar sem hyggjast nýta sér þetta verði stöðvaðir.

Mig langar aðeins að fá nánari útskýringu hjá hæstv. ráðherra: Hvernig var samtalið við lögregluna? Er samkomulag frágengið? Verða einhverjar leiðbeiningar? Verður hverjum lögreglumanni eða lögregluþjóni í sjálfsvald sett hvort hann stoppar þetta? Fer þetta eftir því hvort viðkomandi einstaklingur er með óspektir á leiðinni eða lítur illa út, er óhreinn eða hver veit hvað?

Mér finnst þetta skipta töluvert miklu máli, sérstaklega í ljósi þess að þetta er mikil nýjung, mikið framfaraskref og ekki síst vegna þess að það hvernig til tekst í upphafi mun væntanlega hafa áhrif á hvernig framhaldið verður.