149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er ljóst að það vandamál eða viðfangsefni sem hv. þingmaður nefnir er raunveruleiki og það er partur af því umhverfi sem við erum með hér. Við getum spurt okkur sem svo: Hvað gerist ef einhver kemur inn í neyslurými og er yngri en 18 ára? Hvað ætlum við að gera í þeim tilvikum? Það er ljóst að sú lagabreyting sem hér er lögð til fjallar ekki um þann hóp. Í raun réttri ætti að vísa viðkomandi frá. En þá spyr maður: Er ekki betra að viðkomandi fái viðunandi aðstæður með hjúkrunarfræðing nærri og viðunandi upplýsingar? En þá erum við í raun og veru komin inn á verksvið barnaverndaryfirvalda og komin inn á annað svið en heilbrigðisyfirvöld geta tekið ákvörðun um með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi.

Það má segja að flækjustigið aukist, ef hægt er að orða það sem svo, þegar um er að ræða börn og ungmenni því þá koma barnaverndarsjónarmiðin að. Slík stjórnvöld þyrftu þá að koma að úrræðum sem yrðu að vera sérsniðin að börnum og ungmennum.