149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:42]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því gríðarlega að þetta frumvarp sé komið fram á Alþingi Íslendinga og hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra innilega og þakka henni hreinlega fyrir að þetta sé komið fram á Alþingi. Það er risastórt skref fyrir okkur sem þjóð. Eins hefur verið sérlega ánægjulegt að verða vitni að því hvernig umræðan hefur verið í þingsal í dag um þetta mál. Hér hefur verið talað af ró og yfirvegun. Talað hefur verið fordómalaust, af raunsæi, eins og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á rétt áðan. Það er greinilega þverfagleg sátt um þetta mikilvæga mál og ég fagna því eiginlega meira en ég get komið í orð.

Neyslurými eru einhver mesta framför á sviði skaðaminnkunar í heiminum sem fram hefur komið á síðustu áratugum. Þegar neyslurými eru skoðuð er eðlilegt að horfa til Kanada, enda er Kanada leiðandi í því úrræði. Þar verða örsjaldan dauðsföll af völdum ofskömmtunar og er ástæðan tvíþætt: Þar eru viðlíka neyslurými og við ræðum í dag og frumvarpið snýst um, og eins er mikil áhersla lögð í Kanada í allri vinnu í kringum skaðaminnkun á lyfið Narcan. Í raun og veru má segja að neyslurými án Narcan sé svolítið eins og vínbúð sem selur bara pilsner.

Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra á síðasta þingi, að mig minnir, um hvort hægt væri að auka aðgengi að þessu lyfi, Narcan. Svo ég fari aðeins út í hvers vegna lyfið Narcan er svona mikilvægt í neyslurýmum og raunverulega á mun fleiri stöðum þá má t.d. finna þetta lyf á almenningssjúkrahúsum í Kanada. Þar má finna það í nefúðaformi. Þegar menn lenda í því að fara í ofskömmtunarástand vegna ópíóíða, þá er oft um örfáar mínútur að ræða á milli lífs og dauða. Þar kemur lyfið Narcan inn í myndina. Hægt er að fá þetta lyf í nefúðaformi og getur raunverulega hver sem er gefið þetta lyf, fólki sem er í ofneysluástandi. Það getur munað, eins og áður segir, bara nokkrum mínútum milli lífs og dauða í þessum efnum og því er svo mikilvægt að þetta lyf sé til staðar í öllum neyslurýmum, helst á almenningssalernum og jafnvel á heimilum fólks þar sem vitað er að einstaklingur misnotar ópíóíða.

Setjum þetta í samhengi við t.d. hnetuofnæmi, sem getur verið banvænt. Við sem samfélag höfum ákveðið að eðlilegt sé að til séu pennar til að bregðast við þegar um er að ræða neyðarástand í því efni.

Narcan er líka til í sprautuformi. Þegar það er gefið þarf það að vera gert af lærðu heilbrigðisstarfsfólki, en nefúðalyfið getur keypt svo mikinn tíma áður en faglært heilbrigðisstarfsfólk mætir á svæðið, þá getur aðgengi að þessu nefúðalyfi skipt öllu máli.

Eins og áður segir fagna ég þessu frumvarpi alveg sérstaklega. Mér finnst ég varla þurfa að bæta neinu við því sem áður hefur komið fram. Það var ánægjulegt að heyra orð hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar þar sem hann minntist á skömmina í kringum þessa fíkn. Að skömmin sjálf geti gert hlutina enn verri og þegar samfélag jaðarsetur hópa sem eru viðkvæmir fyrir á slíkan hátt með því að ala á skömm, fordómum og hræðslu, geri það illt verra. Neyslurými hafa sýnt fram á að þau draga úr skömminni, draga úr hræðslunni, draga úr einmanaleikann sem fólk getur upplifað þegar það er statt á þeim stað að vera í viðjum fíknarinnar. Eins er augljóslega um bara heilbrigðismál að ræða, eins og t.d. hv. þm. Sigurður Páll Jónsson kom inn á, upp á hreinlætið. Þegar verið er að nota tæki og tól, sprautur og svoleiðis er minni sýkingahætta ef aðilar geta fengið aðgang að hreinum tækjum og tólum, sprautum, nálum o.s.frv. og þá er líka augljóslega minni hætta á smiti. Aðeins var komið inn á það þegar fundist hafa sprautur á víðavangi, hjá skólum o.s.frv. Neyslurými draga úr líkunum á slíkum slysum.

Að lokum ætla ég aftur að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra sérstaklega fyrir vinnu hennar í þessu máli og fyrir hennar opna hug gagnvart þessum málaflokki. Það er meira en dýrmætt fyrir okkur sem þjóð.

Aðeins hefur verið komið inn á aldurshópinn 18 ára og yngri. Auðvitað er það mjög flókið, og lagatæknilega séð sérlega flókið. Þann þátt þarf að skoða af festu. Ég efast ekki um að hæstv. heilbrigðisráðherra geti innt það vel af hendi, ég treysti henni til þess.

Frú Ragnheiður á líka alveg sérstakt hrós skilið, það góða fólk sem setti Frú Ragnheiði á stofn og hefur unnið að því og átt stóran þátt í því að orðræðan hefur breyst hér á landi frá því að færast frá sleggjudómum, eins og fordómum sem leiða af sér skömm, þessari jaðarsetningu, yfir í það að hér er um að ræða heilbrigðisvandamál. Hér er um að ræða mál sem samfélagið þarf að taka höndum saman um. Um er að ræða vanlíðan fólks. Og það er yndislegt að sjá þessa þróun á Íslandi og gerir mig stolta af landi og þjóð og að vera Íslendingur og vera þingmaður í dag.