149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

taka gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður.

710. mál
[14:15]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp sé komið fram enda er mikilvægt að við ræðum það samhliða breytingum á lögum um fiskeldi. Þó að auðvitað þurfi að ræða upphæðir og annað slíkt í vinnunni við frumvarpið er í grunninn mikilvægt að þetta gjald sé lagt á. Mér finnst hins vegar einnig mikilvægt að það renni til sveitarfélaganna með sanngjörnum hætti, sérstaklega þar sem þau fá ekki aðrar tekjur eins og frárennslisgjald eða fasteignagjöld eða slíkt, líkt og í Noregi.

Þó að sú leið að stofna fiskeldissjóð sé góðra gjalda verð er hins vegar umhugsunarefni að gjaldið renni ekki beint til sveitarfélaganna.

Mig langar því að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Af hverju var sú leið ekki valin hér sem nefnd var í skýrslu starfshópsins og Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á í umsögn sinni? Tilfinning mín er sú að það væri mun gagnlegra að gjaldið rynni beint til sveitarfélaganna, helst á fyrirsjáanlegan hátt þannig að þau geti reiknað með þeirri innkomu í uppbyggingarstarfsemi sinni, þótt auðvitað geti verið sveiflur á milli ára eðli málsins samkvæmt.