149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

taka gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður.

710. mál
[14:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, að sjálfsögðu þurfum við að gera ráð fyrir því. Ég minni á að í fyrra frumvarpinu um breytingu á lögum um fiskeldi er gert ráð fyrir því að gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis hækki úr 100 milljónum í 200 milljónir. Það er fyrst og fremst ætlað til rannsókna tengdum fiskeldinu. Það er umtalsverð hækkun, ef ég man rétt í prósentum þá er þetta um 67% þannig að krónutalan sem ég nefndi er ekki fullkomlega rétt en það liggur á því bili.

Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að stærstum hluta af þeirri gjaldtöku sem hér er að koma inn, sem ráðgert er að verði samkvæmt greinargerð með frumvarpinu einhvers staðar í kringum 130 milljónir á fyrsta ári, verði varið til þess að byggja upp eftirlit og vöktun. Ekki síður vil ég nefna það verkefni sem ég tel að þurfi að leggja í og sé mjög brýnt. Það er að efla rannsóknir á villtum laxi í hafinu þar sem við vitum nánast minna en ekki neitt eða sáralítið. Það er afar brýnt í mínum huga, ekki síst í ljósi þess hvernig afföll hafa orðið í góðum laxveiðiám á síðustu árum.