149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

taka gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður.

710. mál
[14:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því, eins og ég held meira að segja að sé undirstrikað í greinargerðinni með frumvarpinu, að þessi gjaldtaka hljóti að koma til skoðunar í samræmi við það hvernig atvinnugreinin kann að byggjast upp á komandi árum. Ég veit af því að Norðmenn horfa m.a. til Færeyja varðandi gjaldtöku af fiskeldinu. Þó að nýlega hafi komið fram yfirlýsingar frá forsætisráðherra Noregs um að þeir ætli ekki að leggja sérstakt gjald á atvinnureksturinn, þá er engu að síður verið að leggja gjald á leyfisveitingarnar, það eru verulegar fjárhæðir. Ég setti frumvarpið þannig inn í samráðsgáttina með gjaldtöku fyrir magn í leyfi, en viðtökurnar við því voru vægast sagt dræmar, svo ekki sé meira sagt. Flestar umsagnir sem komu voru á þann veg að framleiðslutengja þetta og það má segja að samráðsgáttin hafi þannig gegnt hlutverki sínu. Hún leiddi fram mikla andstöðu og þá tekur frumvarpið tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma og frá (Forseti hringir.) ótal umsagnaraðilum. Við breyttum því verkinu eins og raun ber vitni.