149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

taka gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður.

710. mál
[14:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stutta svarið við þessu er já. Hugsunin í þessu er á þann veg að gjaldtakan standi undir nauðsynlegu eftirliti og vöktun eins og ég gat um í minni framsögu. Þegar fram líða stundir þá mun gjaldtakan skila umtalsvert hærri fjárhæðum en þörf er á til eftirlits og vöktunar og rannsókna og fleiri þátta, að því gefnu, segi ég, að þessi atvinnurekstur byggist upp með skynsamlegum, ábyrgum og góðum hætti eins og vonir standa svo rækilega til. Það mátti sjá af viðtali við forsvarsmann einn í Fiskifréttum sem birtist í dag, þar sem hann hefur mjög miklar og sterkar væntingar til þess að fiskeldi á Íslandi muni skila svipuðum afrakstri og fiskeldi í Noregi best gerist, sérstaklega í Finnmörku. Það er ánægjulegt að heyra þá trú sem endurspeglast í þeim orðum. Til lengdar, segi ég, munum við að sjálfsögðu líta til Færeyja og Noregs varðandi gjaldtöku (Forseti hringir.) og hvernig henni er háttað o.s.frv. Það verðum við að gera.