149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:01]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Við áttum gott samtal á Alþingi um loftslagsmál 25. október sl., fyrir 147 dögum. Á þessum 147 dögum hafa u.þ.b. 29.400 tegundir dýra og plantna dáið út. Á þessum 147 dögum hefur magn koltvísýrings í andrúmsloftinu aukist úr 406 pörtum af milljón í 415 parta af milljón. Og á þessum 147 dögum hafa liðið um 3,5% alls tíma sem við höfum fram að skuldadögum gagnvart Kyoto-sáttmálanum árið 2030.

Það er auðvitað ekki nóg fyrir Ísland að leysa þennan vanda en við verðum að standa okkar plikt og ég trúi því að tækifæri séu fólgin í því fyrir Ísland að leysa vandann sín megin og aðstoða önnur ríki við að uppfylla sömu skyldur gagnvart náttúrunni. Það þarf ekki að minna á að lífvænleiki plánetunnar er í hættu, að ágangur manna á náttúruna er að keyra hana að þolmörkum. Það deilir svo sem enginn um þessi sannindi lengur en spurningar okkar snúa að því hversu langan tíma við höfum og hvort og þá hvernig hægt sé að bregðast við.

Ég veit að hæstv. umhverfisráðherra er ötull baráttumaður fyrir því að bjarga jörðinni en við verðum að spyrja okkur reglulega hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki séu fullnægjandi og til fyrirmyndar. Ég vil því nota þessa sérstöku umræðu til að fá stöðuuppfærslu frá hæstv. umhverfisráðherra um hvað hefur gerst frá því í október. Náum við einhverjum árangri? Munum við ná markmiðunum eða er þetta allt bara einhvers konar leikrit á meðan heimurinn brennur?

Samkvæmt loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar áttu nokkrar aðgerðir að koma til framkvæmda í fyrra: Útfösun svartolíu, rafvæðing hafna, orkuskipti í ferjum, reglur um rafbíla í byggingarreglugerð, ívilnanir fyrir loftslagsvæna bíla og eldsneyti, átak í endurheimt votlendis o.fl. Þá eru ónefndar ótal aðgerðir sem eiga að fara af stað í ár.

Eins og ég hef gagnrýnt áður er vandamálið að þessar aðgerðir eru ekki markmiðssettar upp á umfang samdráttar í losun. Ég hef samt trú á því að flest af þessum markmiðum muni í það minnsta hjálpa eitthvað. Þá er lykilatriðið að þau séu farin af stað.

En hvað hefur klárast og hvenær er búist við því að við sjáum árangur af því að þær aðgerðir hafi klárast? Verðum við ekki enn fremur að líta til annarra skuldbindinga, t.d. í Parísarsáttmálanum, varðandi til að mynda tæknilegan stuðning, þróun tækni til úrlausna loftslagsvandans?

Forseti. Ég óska líka eftir því að við ræðum um og fáum svör við nokkrum öðrum spurningum. Er umhverfisráðherra t.d. tilbúinn að taka af skarið um lagalega vernd 50% yfirborðs Íslands til verndar og eflingar líffræðilegum fjölbreytileika og stuðla að alþjóðlegu samstarfi um að hálft yfirborð jarðar verði tekið frá fyrir náttúruna? Er umhverfisráðherra tilbúinn að óska eftir 1 milljarði kr. aukalega í næstu fjárlögum vegna framræsts votlendis á ríkisjörðum, ónotuðu landi og í yfirgefnum fjörðum og endurheimta það votlendi fyrir lok næsta árs? Er umhverfisráðherra tilbúinn að stíga fast til jarðar á komandi mánuðum með róttækari aðgerðir til samdráttar á losun koltvísýrings, t.d. með herðingu á loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar?

Allt þetta skiptir máli vegna þess að þær aðgerðir sem hafa verið lagðar til eru einar og sér líklega ekki nóg til að leysa vandann. Ef við getum ekki bæði leyst vandann hér heima og komið á mun víðtækari og öflugri alþjóðlegri samvinnu um að leysa vandann á heimsvísu, helst með Íslendinga í forsvari, er hætt við því að við náum ekki að leysa vandann sem við stöndum frammi fyrir í tæka tíð.

Undanfarnar vikur hafa börn landsins komið saman á hverjum föstudegi til að mótmæla aðgerðaleysi bæði ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórna alls heimsins í loftslagsmálum. Börnin hafa rétt fyrir sér, við þurfum mun meiri og róttækari aðgerðir en ríkisstjórnir heimsins hafa boðað og það er ekki síst pólitískt mikilvægt að fólk í samfélaginu sjái að tilteknar aðgerðir virki. Samtakamáttur mannkynsins er mjög mikill þegar við tökum okkur til og það má ekki vanmeta hann en mikilvægi þess að ríki heimsins sameinist um að leiða þessa baráttu má heldur ekki vanmeta. Við erum, eins og áður hefur verið sagt, á ákveðinni örlagastundu en ég hef mikla trú á því að við getum leyst þetta ef við vinnum saman.

Ég hlakka til að heyra frá öðrum í þessari umræðu og ekki síst hæstv. umhverfisráðherra um hvað hefur gerst og hvernig við ætlum að stíga áfram.