149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að opna þessa umræðu. Það blasir oft þannig við mér að við setjum fókusinn á hluti sem skila kannski ekki mjög miklum árangri í þessum efnum á sama tíma og umræðan er á köflum á skjön við raunveruleikann sem við okkur blasir. Hér heima fyrir eru í gangi álitleg verkefni sem snúa að orkuskiptum í samgöngum, svo dæmi sé tekið og margt fleira mætti tína til.

Nú liggur fyrir samkvæmt spá Orkuseturs, ef ég man rétt, að til ársins 2050 þurfum við viðbótarorku sem nemur þremur Búðarhálsvirkjunum, uppsafnað, án þess að nein stóriðja bætist við hér heima fyrir. Þetta er á sama tíma og allt umhverfi orkunýtingar í þessu landi, þar sem við eigum reiðinnar býsn af ónýttum, endurnýjanlegum, grænum orkuauðlindum, er þannig að þar má helst ekkert nýta.

Ég held að við ættum að setja nokkra orku í það að skoða þessa hluti í samhengi, hverja við teljum orkuþörfina verða nokkur misseri héðan í frá, samanborið við það hvað þessi mál öll eru að skila okkur og áætlunin í heild. Jafn ágæt og hún er liggur það fyrir að orkuþörfin er mjög vaxandi, jafnvel þó að ekkert komi til (Forseti hringir.) sem snýr að aukinni stóriðju hvar á landinu sem er.