149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:14]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Við Íslendingar stærum okkur af því að vera með sjálfbæra orkunotkun en samt losum við tvöfalt meira af gróðurhúsalofttegundum en aðrar Evrópuþjóðir, jafnvel þótt við notum meiri vatnsorku, jarðvarmaorku en þær gera flestar. Okkur tókst ekki að standa við skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar á tímabilinu 2013–2020 og þá horfir illa með Parísarsáttmálann.

Það gengur hægt að skipta út óhreinni orku fyrir hreina í vélknúnum tækjum, tryggja að landnotkun sé sjálfbær og draga úr því magni af úrgangi sem verður til í neyslusamfélaginu. Bæði vilja sterk öfl viðhalda óbreyttu ástandi og eins hafa stjórnvöld látið hjá líða í mörg ár að skapa forsendur fyrir breyttum lífsstíl hvað varðar samgöngur og annað í daglegu lífi okkar. Ýmsir harðneita að koma auga á samhengi milli hins risastóra sótspors okkar og stórfelldrar einkabílanotkunar hér og berjast gegn uppbyggingu á almenningssamgöngum eins og þær tíðkast í öllum siðmenntuðum löndum.

Fleira má nefna, fullkomlega hugsunarlaust dekur stjórnvalda við stóriðju og bílafyrirtæki sem ekki bjóða sparneytna bíla, lágt verð á mengandi eldsneyti, notkun okkar á flugsamgöngum sem heimsendingarþjónustu á alls konar varningi sem haldið er ódýrum með smánarlaunum og óvistvænni landnotkun, hirðuleysislegt neyslumynstur og frumstæðar samgöngur.

Hvað getum við gert, virðulegi forseti? Svo margt. Hugviti mannsins eru næstum því engin takmörk sett þegar hann hefur einsett sér að beina því í átt að lausn vandamála. Þannig er það líka þegar kemur að loftslagsbreytingum þó að nóg sé auðvitað um úrtölumenn og strútskýrendur sem vilja skoða hlutina í samhengi, eins og þeir segja. Við þurfum, eins og Samfylkingin samþykkti um síðustu helgi í stjórnmálaályktun, nýjan grænan sáttmála.