149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:21]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu í dag því að það er vel við hæfi að ræða loftslagsmál á alþjóðlegum degi skóga. Varðveisla, endurheimt og uppbygging skóga um allan heim er meðal þeirra viðfangsefna sem skipta hvað mestu máli við bindingu og geymslu kolefnis í gróðri og jarðvegi.

Einnig er gaman að segja frá því að í dag afgreiddi umhverfis- og samgöngunefnd frumvarp til laga um skóga og skógrækt til 2. umr. og fyrr í vetur voru samþykkt ný landgræðslulög, hvort tveggja löngu tímabær skref sem stuðla að bættum árangri í loftslagsmálum. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnir vinni landsáætlanir í landgræðslu og skógrækt sem ráðherra samræmi og nú er lagt til að þær áætlanir verði kynntar umhverfis- og samgöngunefnd áður en þær taka gildi.

Við gerð þessara landsáætlana tel ég mikilvægt að forgangsraðað verði þannig að verkefni þar sem næst að flétta saman sem flest markmið aðgerða í loftslagsmálum, skógræktar-, gróður- og jarðvegsvernd og sjálfbærra nytja, hafi forgang. Þannig verður árangurinn í loftslagsmálum bestur og á sem flestum sviðum. Miklar framfarir eru að verða og hafa orðið í samþættingu í stefnu og áætlanagerð ríkisins, svo sem í samgöngum og loftslagsmálum. Ég tel að löngum höfum við vanmetið fræðslu sem leið til aðgerða í loftslagsmálum því að þekking einstaklinga ræður mestu um hvernig heimili, fyrirtæki og stofnanir bregðast við áskorunum í loftslagsmálum. Ég fagna þess vegna mjög aukinni fræðslu í skólum, nýlegri þáttaröð RÚV og vitundarvakningunni sem fylgir loftslagsverkföllunum. Nýtni, hagsýni og nýsköpun hafa í gegnum tíðina oft verið taldar andstæður í umræðunni en raunin er að nýtni og nýsköpun eru grundvöllur árangurs í loftslagsmálum. Þess vegna er mikilvægt að við mótun nýsköpunarstefnu sem nú stendur yfir sé horft til þessa sviðs sem og í vinnu framtíðarnefndar stjórnvalda.