149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir framlag þeirra hér og skólabörnum landsins fyrir að halda okkur við efnið.

Flestir vísindamenn telja hlýnun jarðar af mannavöldum vera óumdeilanlega staðreynd, að breytingarnar hafi hafist fyrir 100 árum og fari stigvaxandi verði ekkert að gert. Við erum rétt að byrja að sjá upphaf þess, hörmungar sem dunið hafa yfir jarðarbúa eða einstök svæði jarðar á umliðnum áratugum eða árhundruðum hafa yfirleitt komið næsta fyrirvaralaust. Nú höfum við ekki þá afsökun. Aðgerðir stjórnvalda um allan heim virðast máttlitlar enda snerta allar raunverulegar breytingar til að taka á vandanum sjálfa ímynd okkar um lífsgæði og lífshamingju og á meðan svo er þarf ekki bara aðgerðir heldur einnig víðtæka viðhorfsbreytingu um allan heim. Lyfta þarf grettistökum.

Ég fagna þeim aðgerðum sem íslensk stjórnvöld hyggjast grípa til í þessum málum. Rafbílavæðing einkabifreiðaflota landsmanna á 10–15 árum er þó einungis hænufet miðað við heildarlosun hér á landi.

Herra forseti. Súrnun sjávar er nærtækt vandamál sem við eigum að láta okkur varða. Hlýnun sjávar verður til þess að fiskstofnar færa sig um set þótt nýir komi væntanlega í staðinn. Og þó að það sé ekki loftslagsmál er geislamengun í sjó eftir kalda stríðið lítt kannað og óþekkt vandamál sem lítill gaumur virðist gefinn þótt vitað sé að í upphafi kjarnorkualdar hafi stórveldin varpað úrgangi af þessu tagi lítt vörðum á haf út.

Þessi þrjú síðastnefndu atriði snúa beint að lífæð okkar Íslendinga sem er sjávarútvegurinn og okkur ber skylda (Forseti hringir.) til að leitast við að beita áhrifum okkar svo til gagnaðgerða sé gripið sem allra fyrst.

Herra forseti. Aðgerða er þörf og hér eigum við Íslendingar að skipa okkur í fremstu röð.