149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Tikk-takk. Loftslagsmálin eru ekki bara risamál heldur langlangstærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir. Við erum með metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en það breytir því ekki að skýrsla vísindanefndar og aðrar erlendar skýrslur vísindamanna sýna okkur að við þurfum að sýna enn meiri metnað og við þurfum að ganga enn lengra. Mikilvægt er að lönd og ríki komi sér saman, eins og til að mynda í Parísarsáttmálanum, en ekki er síður mikilvægt að atvinnulífið, sveitarfélögin, félagasamtök og einstaklingar vinni saman að þessu mikilvæga máli. Sú vitundarvakning sem hefur átt sér stað að undanförnu er frábær. Mig langar að hrósa sérstaklega þáttunum á RÚV, Hvað höfum við gert, og því frábæra framtaki ungs fólks á Austurvelli á föstudögum.

Við þurfum að bregðast við hratt. Við þurfum að draga úr mengun og útblæstri og vinna saman í þeim efnum. En við megum ekki gleyma því að við þurfum líka að búa okkur undir þær breytingar sem óhjákvæmilega hafa orðið og munu verða á næstu árum. Þá er ég að vísa til þess þegar kemur að skipulagi og uppbyggingu alls konar innviða. Hvernig gera þessi mannvirki okkar og skipulag ráð fyrir að við lifum í breyttum heimi? Við sjáum fram á enn frekari breytingar á næstu árum, því miður. Hvað vitum við mikið um hafið í kringum okkur og um norðurslóðir, hvaða áhrif mun það hafa á okkar helstu atvinnugrein sem sjávarútvegurinn er? Ég held nefnilega að við vitum því miður ekki nógu mikið um þessa þætti. Þess vegna langar mig að enda á að segja að við þurfum að rannsaka það í drasl. En við þurfum að byrja strax á aðgerðum sem lúta að því að minnka mengun og útblástur.