149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:41]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. umhverfisráðherra fyrir hans yfirgripsmiklu ræðu og þær umræður sem þingmenn hafa verið með hér í dag.

Á síðustu árum hefur orðið mikil vakning meðal einkaaðila og þar með talið einstaklinga varðandi þá loftslagsógn sem steðjar að með aukinni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Þar sem ég bý, í Sveitarfélaginu Hornafirði, horfum við hreinlega á áhrifin á náttúruna með hopun skriðjökla ár frá ári.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gefið út metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem komið hefur verið inn á. Í áætluninni eru tillögur að 34 aðgerðum sem eiga að stuðla að minnkun losunar og aukinni kolefnisbindingu. Aðgerðirnar eru stjórnvaldsaðgerðir, en jafnframt er ljóst að fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar geta nýtt sér áætlunina og tekið þátt í að minnka losun.

Ég vil beina athyglinni aðgerð 26 og 27 en þar er um að ræða fræðslu, bæði í skólum og til almennings. Fræðslan er mjög mikilvæg og eins og kom fram í máli ráðherra er unga fólkið orðið leiðandi afl í þessu tilliti, sem er frábært og við þurfum að nýta.

Liður 28 fjallar um urðunarskatt og bann við urðun lífræns úrgangs. Skatturinn er hugsaður sem hvati til að minnka urðun lífræns úrgangs þar til því verður hætt með öllu. En varðandi úrgang og meðferð hans er mjög mismunandi hvernig það er á milli sveitarfélaga landsins og það er eitt af því sem þarf að samræma, því að misræmið veldur óöryggi og dregur úr flokkun einstaklinga sem fara á milli sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að draga úr neyslu og sóun, ekki aðeins sóun matvæla heldur almennri sóun.

Þá vil ég benda á viðburð sem Kvenfélagasamband Íslands og Leiðbeiningastöð heimilanna stendur fyrir næstkomandi laugardag undir yfirskriftinni Umhverfisdagurinn — minnkum fatasóun. Þar verður leiðbeint við viðgerðir og lagfæringar á fatnaði, auk þess sem fataskiptimarkaður verður. Þarna er fyrirmyndarviðburður sem félagasamtök standa fyrir. Grasrótin er virk með verkefnum sem þessum, pokasaumi, pokastöðvum og öðru (Forseti hringir.) svo dæmi séu tekin. Við verðum öll að stökkva á vagninn, taka ábyrgð og gera það sem í okkar valdi stendur til að róa að settu loftslagsmarkmiði.