149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

fjármálaáætlun og staða flugmála.

[15:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um tvennt. Í fyrsta lagi: Er okkur ekki óhætt að gera ráð fyrir því að ríkisstjórnin muni draga til baka fjármálaáætlun sína og fresta þeirri umræðu sem til stóð að hafa í þinginu á morgun í ljósi þess að forsendur áætlunarinnar standast ekki? Loðnubrestur liggur fyrir og mikil óvissa hangir yfir í ferðaþjónustunni og það hlýtur að verða tekið með í reikninginn þegar við ræðum fjármálaáætlun til næstu ára.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort ríkisstjórnin sé með eitthvert plan til að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi, sérstaklega hjá flugfélaginu WOW. Er ríkisstjórnin með áform um að bregðast við ólíkum sviðsmyndum eftir því hvernig þau mál þróast? Komið hefur fram að ráðherrar hafi hitt erlendan ráðgjafa í Stjórnarráðinu sem mun hafa verið staddur þar fyrir rælni og er ágætisráðgjafi í bankamálum, að mér skilst, og ágætt að ríkisstjórnin leiti álits þessa manns. En hefur hún leitað til sérfræðinga á sviði flugmála og hefur hún mótað sér áætlun um það hvernig brugðist verði við, með það að markmiði að lágmarka tjónið fyrir íslenskt samfélag fari illa í rekstri þessa flugfélags, verja störf og halda starfseminni gangandi eins og kostur er?

Nú er það ekkert nýtt að flugfélög lendi í vandræðum. Mörg stór flugfélög hafa gert það á undanförnum árum og jafnvel áratugum og þar af leiðandi er fyrir hendi heilmikil reynsla í að bregðast við slíkum aðstæðum. Hefur ríkisstjórnin litið til þeirrar reynslu, leitað sér ráðgjafar? En fyrst og fremst: Hefur ríkisstjórnin eitthvert plan?