149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

forsendur fjármálaáætlunar.

[15:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Á svipuðum slóðum: Fyrir örfáum dögum ræddum við hæstv. fjármálaráðherra um fjármálaáætlun og þá spennitreyju sem ég tel að ríkisstjórnin sé búin að koma okkur í. Nú eru forsendur áætlunarinnar brostnar á innan við tveimur dögum eftir að hún er birt. Við höfum öll haft áhyggjur af stöðu WOW í langan tíma. Hæstv. ráðherra tók undir þetta á mbl.is í morgun — án þess að hafa gert nokkrar tilraunir til að svara því hvernig eigi að bregðast við, ja, nema kannski að einu leyti því að í viðtali við Bloomberg sagði hæstv. ráðherra að ef hægði á hagvexti vegna efnahagslegra áfalla sjái hann enga aðra möguleika en að skera niður á útgjaldahliðinni.

Miðað við stöðu WOW í dag blasir þessi staða við. Ég spyr ráðherra einfaldlega: Hvar er mögulegt að skera niður? Eiga veikustu hóparnir að bera þann niðurskurð? Ætlar ríkisstjórnin að láta velferðarkerfið og þá sem þurfa á þjónustu þess að halda standa enn einu sinni undir efnahagsþrengingum ef allt fer á versta veg?

Herra forseti. Þurfum við ekki að fara að horfast í augu við raunveruleikann og ræða hvers konar viðbragða er raunverulega þörf til að tryggja velferð allra?

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Kemur til greina að breyta útgjaldareglu ríkisstjórnarinnar svo að svigrúm skapist til að minnka hugsanlega niðursveiflu? Kemur til greina að endurskoða skattaútspil ríkisstjórnarinnar með það fyrir augum að liðka fyrir kjarasamningum, létta undir með verst stöddu hópunum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum, með öðrum orðum að tryggja velferðina í landinu?

Hefur ráðherra engin önnur vopn en niðurskurðarhnífinn?