149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

forsendur fjármálaáætlunar.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt frá í dag er fjármálaáætlunin byggð á gildandi hagspám. Það er eins og að í hvert sinn sem Hafrannsóknastofnun kemur með veiðiráðgjöf til ráðherrans spretti fram í þingsal þingmenn sem vita að fiskarnir í sjónum eru fleiri en vísindamennirnir hafa komist að niðurstöðu um. Þegar Seðlabankinn ákveður vexti í landinu koma ávallt upp í þingsal þingmenn sem segja að þetta hafi ekki verið rétt niðurstaða vegna þess að þeir viti miklu betur en sérfræðingarnir í Seðlabankanum hvert væri hentugasta vaxtastigið í dag. Þegar hagfræðingarnir koma fram með hagspá sem byggir á undirliggjandi gögnum um stöðuna í hagkerfinu má ganga út frá því sem vísu að upp í pontu komi þingmenn sem segi: Þessi hagspá er röng. Nákvæmlega eins og þeir gerðu fyrir ári síðan og höfðu rangt fyrir sér koma þeir núna og segja að gildandi hagspár séu einfaldlega rangar.

Ég get ekki tekið undir þetta. Það eina sem ég get sagt er það sama og segir í fjármálaáætluninni sjálfri sem er að það er vissulega uppi óvissa um framvindu ákveðinna mála, sérstaklega í flugrekstrinum. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að ríkisstjórnin hefur lagt fram áætlanir sem byggja á því að við skilum myndarlegum afgangi. Það er mögulega hægt að ganga á þann afgang ef forsendur bresta, ekki bara fjármálaáætlunarinnar heldur fjármálastefnunnar. Þá segir í lögunum um opinber fjármál að við getum endurskoðað stefnuna og gengið á afganginn. Fyrir því er gert ráð í sjálfum lögunum.

Þegar ég segi að viðbrögð okkar hljóti að vera þau að draga úr útgjaldaáformum sér hv. þingmaður ekkert nema niðurskurð. Hann áttar sig ekki á því að við erum að auka útgjöldin ár frá ári og við hljótum að taka til endurskoðunar hversu mikið við aukum útgjöldin ef hagvöxtur á Íslandi stöðvast. Ég held hins vegar að hv. þingmanni verði ekki að ósk sinni um að fá núna loksins tækifæri til að hækka skatta, sem Samfylkingin bíður eftir. Það er ekki að koma, hv. þingmaður.