149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

forsendur fjármálaáætlunar.

[15:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra til upplýsingar sér internetið um að bera fréttir til landsins. Það er ekki líðandi að ráðherra svari með einum hætti í þessum ræðustól en segi eitthvað allt annað við Bloomberg. Við erum ekkert að tala um gildandi hagspá. Við erum að tala um viðbrögð við breytingum. Og ef fiskurinn í sjónum fer, hæstv. ráðherra, hugsar maður sig vandlega um en fer ekki út á miðin og leggur netin. Þá veltir maður fyrir sér hvert sé hægt að fara. Í fyrra komu 80 umsagnir um fjármálaáætlun og minntust margir á það og vöruðu við. En ekki var brugðist við neinu.

Ég minni á viðtal við Þórólf Matthíasson í gær þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„[H]ér er búið að koma upp reglu sem getur aukið sveifluna og það þarf að taka í taumana áður en það verða einhver stórslys þess vegna.“

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra og bið hann að svara mér: Kemur til greina að afnema útgjaldaregluna? Og númer tvö: Kemur til greina að breyta skattaútspili ríkisstjórnarinnar á þann veg að skattar verði vissulega hækkaðir á okkur (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra sem höfum há laun, en þeir lækkaðir á lág- og millitekjufólk?