149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

forsendur fjármálaáætlunar.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nei, ég tel enga þörf á því að hækka skatta og tel að við getum skilað ávinningnum af þessu langa hagvaxtarskeiði með skattalækkun eins og lagt hefur verið upp með.

Varðandi útgjaldaregluna held ég að hv. þingmaður sé að misskilja eitthvað. Hvað segir þessi útgjaldaregla? Hún segir: Ríkissjóð á að jafnaði aldrei að reka með meira en 2,5% halla. Yfir hvert fimm ára tímabil á að skila ríkissjóði í jöfnuði.

Ef hv. þingmaður telur að þetta sé spennitreyja fyrir ríkissjóð, sem hefur verið rekinn samfellt með afgangi mörg undanfarin ár og við erum með áform um að halda áfram að reka ríkissjóð með milljarða tuga afgangi, spyr ég bara: Hverju er þingmaðurinn að spá varðandi framtíðina? Hann vill ekki bara fara 2,5% í mínus, hann vill fara lengra í mínus. Hann vill byrja að safna skuldum út af einhverju sem er ekki einu sinni orðið.

Það að við þurfum að skila ríkissjóði á hverju fimm ára tímabili í afgangi er spennitreyja að mati hv. þingmanns. En ég vek þó athygli hans á því, hafi hann af þessu of miklar áhyggjur, (Forseti hringir.) að það er undanþága í lögunum. Ef sérstakar aðstæður skapast er hægt að víkja frá þessari útgjaldareglu í takmarkaðan tíma sem ætti að duga. Vonandi þarf þingmaðurinn ekki að reka ríkissjóð, ef hann einhvern tímann fær völd til þess, í lengri tíma en fjögur, fimm ár í halla.