149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

rekstrarumhverfi útflutningsgreina.

[15:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég held að sú alvarlega staða sem blasir við okkur sé ekki tilefni til þess að standa í miklu karpi í þessum stól heldur einmitt að við reynum að einhenda okkur saman í það hvernig við tökum á þessum vanda. Ég hlustaði á orð hæstv. fjármálaráðherra um að stjórnvöld væru að vinna eftir ýmsum sviðsmyndum til að bregðast við þeim vanda sem snertir WOW og þann bráðasta vanda sem við erum að glíma við. Ég treysti því að svo sé.

Ég hef hins vegar áhyggjur og velti því fyrir mér hvort þetta sé ekki líka ástæða og tækifæri fyrir okkur til að hugsa aðeins til lengri framtíðar. Ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum fordæmalaust vaxtarskeið en samt er búið að vera nokkuð ljóst undanfarin tvö til þrjú ár að þessi uppgangur hefur ekki skilað sér í traustari afkomu greinarinnar. Raunar er ljóst að undanfarin tvö ár, hið minnsta, hefur greinin verið afkomulítil eða jafnvel með öllu afkomulaus, sem segir okkur að sú staða sem við stöndum frammi fyrir núna er hvorki sérlega óvænt né ófyrirséð.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé mér ekki sammála um að það sé nauðsynlegt að horfa til þess hvernig við treystum undirstöður og rekstrarumhverfi útflutningsatvinnuvega okkar. Því að ferðaþjónustan sýnir okkur einmitt nákvæmlega hversu brothætt sú umgjörð er með þá mynt sem við störfum með. Þetta er sú atvinnugrein sem er útsett og mjög viðkvæm fyrir sveiflum í gengi krónunnar og hefur sýnt það augljóslega með því að hér var tæplega 30 milljarða tap á flugrekstri bara á síðasta ári miðað við þær tölur sem birst hafa.

Það virðist vera sem greinin sé meira og minna í járnum eða í tapi í fordæmalausum uppgangi. Á sama tíma hefur heldur lítill sem enginn vöxtur orðið, t.d. í sprota- og tæknigeiranum á síðastliðnum þremur árum af sömu ástæðum; af óásættanlegum rekstrarskilyrðum útflutningsatvinnuvega.