149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

rekstrarumhverfi útflutningsgreina.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar hann segir að það skipti miklu að gera það sem við getum til að treysta rekstrarumhverfi útflutningsgreinanna og þar með talið ferðaþjónustunnar, sem gengið hefur í gegnum alveg fordæmalaust vaxtarskeið undanfarin ár. Það hefur gengið á ýmsu. Sumum fyrirtækjum í ferðaþjónustu gengur afskaplega vel, öðrum gengur síður. Mörg eru rekin með tapi.

Ég myndi vilja vekja athygli á því að margt hefur haft áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu, þar með talið ferðaþjónustunnar. Jú, auðvitað skiptir gengi krónunnar máli. Mér finnst samt flestir vera þeirrar skoðunar að krónan hafi legið í kringum jafnvægisgildi sitt núna um nokkurt skeið. Hún hefur veikst frá því að hún styrktist hvað mest, sem hjálpaði öllum útflutningsgreinunum, þar með talið ferðaþjónustunni. Og bókunarstaðan fyrir komandi sumar var alveg ágæt um síðustu áramót miðað við það hversu mikil neikvæðni var í umræðunni og borið saman við fyrra ár.

Það verður auðvitað ekki horft fram hjá því hversu gríðarlega miklar launahækkanir hafa verið á Íslandi á undanförnum árum. Laun á Íslandi, eins og við rekjum í nýútkominni fjármálaáætlun, hafa í evrum hækkað langt umfram það sem á við í samanburðarlöndunum, nágrannalöndunum. Laun á framleidda einingu á Íslandi hafa hækkað langt fram úr því sem átt hefur við í samanburðarlöndunum, sama hvort við horfum til Evrópuríkja eða þess vegna vestur um haf. Sömuleiðis hafa aðrir þættir gert ferðaþjónustuaðilum erfitt fyrir. Ég nefni bara þá gríðarlega hörðu samkeppni sem er í flugrekstri yfir Norður-Atlantshafið. Það hefur ekki gert mönnum auðvelt fyrir og ekki heldur olíuverðsbreytingar. (Forseti hringir.) Ég held að vandinn liggi ekki í íslenska gjaldmiðlinum.