149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

rekstrarumhverfi útflutningsgreina.

[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar sú breyting verður í hagkerfinu að ferðaþjónustan, sem var kannski hálfdrættingur á við sjávarútveg eða orkufrekan iðnað, er skyndilega í útflutningstekjum tekin fram úr báðum þessum stoðum hagkerfisins og jafnvel farin fram úr því sem þessar tvær stoðir skapa samanlagt í útflutningstekjur á stuttu tímabili — ja, við hverju er öðru að búast en að krónan styrkist? Er það ekki einmitt það sem krónan hlýtur að gera og á að gera? Ég held að það hafi verið rétt hjá Seðlabankanum sem hann gerði þegar krónan styrktist vegna þess að við fórum úr hálfri milljón ferðamanna í 2 milljónir ferðamanna og gott betur og þegar krónan var að styrkjast var hún að gera nákvæmlega það sem eigin gjaldmiðill hlýtur að eiga að gera við þær aðstæður. Reyndar var slíkt flóð af gjaldeyri inn í landið að Seðlabankinn mátti hafa sig allan við að taka hann af borðinu til að forða enn frekari styrkingu. Þannig hefur ferðaþjónustan í raun og veru skapað (Forseti hringir.) bróðurpartinn af þeim gjaldeyrisforða sem nú er að finna í Seðlabankanum.

Að þessu leytinu til held ég að við séum með gott dæmi um hversu (Forseti hringir.) mikilvægt það var að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.