149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

lokun göngudeildar SÁÁ á Akureyri.

[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Vegna þess að hv. þingmaður nefnir að þessi starfsemi hafi verið í gangi um áratugaskeið á Akureyri er rétt að nota tímann og segja að þessi rekstur hefur verið greiddur af sjálfsaflafé samtakanna og með stuðningi frá Akureyrarbæ hingað til, sem sagt ekki á grundvelli þjónustusamnings við ríkið. Það var ekki fyrr en á árinu 2018 með fjárlögum fyrir árið 2019 sem ákvörðun var tekin af ríkinu um að koma inn í þennan rekstur með sérstöku fjárframlagi. Þess vegna kom mjög á óvart þegar SÁÁ ákvað að loka göngudeildarþjónustunni tímabundið frá 1. mars vegna kostnaðar þegar um er að ræða starfsemi sem hefur verið við lýði um áratugaskeið og hefur verið greidd af sjálfsaflafé og í fyrsta skipti í sögunni erum við með eyrnamerkta peninga úr ríkissjóði til að tryggja reksturinn. Þá kom á óvart að mönnum skyldi verða svo brátt sem ljóst er að loka starfseminni. Það kom mér á óvart og olli mér vonbrigðum.

Vegna þess að það er ekki bara hv. þingmaður heldur líka sú sem hér stendur sem veit að sé von á óundirbúnum fyrirspurnatíma eru meiri líkur en minni á að einhverjum detti í hug að spyrja um samningaviðræður varðandi rekstur SÁÁ og göngudeildarþjónustu á Akureyri spurði ég sérstaklega um þetta í morgun og mínar upplýsingar eru þær að samningaviðræður gangi vel og að Sjúkratryggingar Íslands reikni með því að ljúka samningagerð mjög fljótlega. Á morgun er fundur um málið og ég vonast til þess að það verði fundurinn sem lokar málinu.