149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

lokun göngudeildar SÁÁ á Akureyri.

[15:44]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Við ræddum þetta einmitt í lok janúar í fyrra í óundirbúnum fyrirspurnum varðandi þjónustusamninga hjá ríkinu. Í þessu tilviki eru það um 900 millj. kr. á ári sem hafa farið til SÁÁ úr ríkissjóði, en það hafa ekki verið skilgreind almennilega markmið ríkisins með viðkomandi þjónustusamningi, þ.e. í hvað fjármagnið á að fara. Við gerðum athugasemd við þetta í janúarlok í fyrra, fyrir einum 14 mánuðum, þannig að aðeins hefur verið unnið í málinu við að reyna að skilgreina þetta. Þetta á svo sem við víða.

Á Íslandi eru starfandi rúmlega 40 áfengis- og vímuvarnaráðgjafar. Eins og staðan er núna er enginn fyrir utan suðvesturhornið. Þeir eru allir á höfuðborgarsvæðinu.

Ég ítreka það bara og þakka fyrir svörin sem hér hafa komið fram um að þetta sé að gerast en við þurfum að skilgreina vel, og það á víða við í heilbrigðiskerfinu, (Forseti hringir.) hvað við erum að fá fyrir það fjármagn sem kemur fram.