149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:02]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Undanfarin misseri hafa landsmenn orðið vitni að mörgum sorglegum dæmum um slæmt framferði og viðmót gagnvart erlendum starfsmönnum sem hingað leita í ærin verkefni. Úr ýmsu hefur verið að velja á útþöndum byggingarmarkaði, í óþreyjufullri í ferðamannaþjónustu og á blómstrandi veitinga- og gistimarkaði.

Þar virðast finnast sumir íslenskir vinnuveitendur, ekki allir, sem óhikað og oft markvisst athafna sig handan laga og reglna og sýna hreinan fantaskap. Allt í skjóli þess að lög og reglur eru og hafa verið vanbúin. Alvarlegustu tilvikin þola ekki dagsljósið, eru til skammar og standast tæpast ákvæði laga um dýravelferð. Samtök launþega, stéttarfélögin hafa linnulítið vakið athygli stjórnvalda á alvarlegum brestum og augljósum tilvikum um brotalamir og níðingshátt en hafa ein og sér lítil og takmörkuð úrræði til að bregðast við. Sú mynd sem virðist blasa við er að stjórnvöld setji kíkinn fyrir blinda augað og ani áfram og viðhafi í besta falli einhverja orðræðu um að eitthvað þurfi að gera, styrkja þurfi eitt og stuðla að öðru, en svo gerist harla lítið og það sem gerist, gerist hægt.

Við horfum upp á brot af öllu tagi: Ólöglega sjálfboðaliðastarfsemi, launastuld, ófullnægjandi ráðningarsamninga, misnotkun á vinnandi fólki, brot á ákvæðum um hvíldartíma, óviðunandi aðbúnað og misnotkun í tengslum við útleigu á íbúðarhúsnæði í eigu atvinnurekenda og það viðgengst enn. Við þurfum ekki annað en að minnast umfjöllunar um mál rúmenskra verkamanna í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV fyrir skemmstu.

Virðulegur forseti. Er til of mikils mælst að hæstv. ráðherra beiti sér af ofurefli og geri það að algjöru forgangsverkefni að vinna að úrbótum og tryggja að við högum okkur að þessu leyti eins og siðmenntuð þjóð?