149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:07]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni. Hann var með flotta ræðu. Ég ætla að vera aðeins praktískari í nálgun en þakka fyrir umræðuna og fagna því einnig að þessi vinna sé komin af stað. Samstarfshópurinn, sem félags- og barnamálaráðherra skipaði um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði, skilaði skýrslu sinni í byrjun árs.

Velferðarnefnd bauð í kjölfarið ráðherra ásamt formanni starfshópsins að koma á fund nefndarinnar og gera grein fyrir niðurstöðum og tillögum skýrslunnar. Á fundi velferðarnefndar kom fram sá vilji ráðherra að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd eins fljótt og mögulegt væri og var talað um að von væri á því að vinnan yrði kláruð á vorþingi 2020. Ég tek undir með ráðherra að það er mjög brýnt að koma þessum tillögum til framkvæmda sem allra fyrst. Langar mig því til að hvetja ráðherra til að birta tímasetta áætlun fyrir þessa vinnu þannig að við í velferðarnefnd getum veitt honum gott og virkt aðhald í þessum málaflokki.

Einnig hvet ég hann til að birta kostnaðaráætlun vegna þess að ég á sérstaklega erfitt með að sjá að á nýrri fjármálaáætlun sé gert ráð fyrir því að það sé nokkur kostnaður sem fylgir þessum breytingum. Ef hann er sýndur einhvers staðar þætti mér alla vega vænt um ef hæstv. ráðherra gæti bent mér á hvar það er. Ein af tillögum starfshópsins sem snýr að eftirliti er að þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði, þ.e. lögreglan, ríkisskattstjóri, vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun, geri með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Formbundið verði reglulegt samráð og samstarf þessa samstarfsvettvangs við aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit. Það er mjög mikilvægur hluti af tillögunum.

Í fjármálaáætlun segir, með leyfi forseta:

„M.a. hefur Vinnumálastofnun verið með lögum falin veiting atvinnuleyfa sem og eftirlit með útsendum starfsmönnum og starfsemi starfsmannaleigna í því skyni að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og önnur stjórnvöld.“

Ég fæ ekki með nokkru móti séð að gert sé ráð fyrir kostnaði við þetta eftirlit í umræddri fjármálaáætlun. Gott væri að heyra frá ráðherra hvernig staðið verði undir þessu eftirliti. Ég get ekki séð annað en að í nýrri fjármálaáætlun sé, (Forseti hringir.) að teknu tilliti til hagvaxtar, verðbólgu og launaþróunar, samdráttur einmitt í málaflokki (Forseti hringir.) um vinnumál og atvinnuleysi. Ég get heldur hvergi séð fjármagn til ríkisskattstjóra. (Forseti hringir.) Það væri því gott að fá skýringar á þessu. Verða þessar tillögur fjármagnaðar og hvar get ég séð þær?