149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja eins og aðrir á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Mér finnst reyndar líka ástæða til að minna á það að langflest fyrirtæki á markaði vilja auðvitað bara gera vel og vanda sig. Eftirlitsiðnaðurinn okkar og eftirlit með atvinnustarfsemi á að taka mið af því. Þannig eiga okkar stofnanir að mínu viti fyrst og fremst að vera leiðbeinandi til þeirra sem starfa úti á markaði, hvernig þeir geti sem best hagað sínum þáttum. Svo eru auðvitað alltaf einhverjir skussar sem þarf svolítið að ýta á eftir og síðan er lítill hópur fyrirtækja sem hreinlega, eins og kom fram áðan hjá frummælanda þessa máls, ætla sér að brjóta lögin og brjóta á fólki til að græða meiri peninga. Það er auðvitað viðbjóðslegt og á því þarf að taka með festu.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þær aðgerðir sem hann hefur nú þegar farið í annars vegar í lagaumhverfinu og hins vegar með skipun starfshóps til að fara yfir þá þætti sem þarf nauðsynlega að taka á. Þá er mikilvægt að það sé samstarf milli þessara aðila og eins og hópurinn svaraði þá þarf að vera formlegt samkomulag og skipulag þeirra aðila sem sinna eftirliti. Það er tvíverknaður af hálfu ríkisins og annarra stofnana sem koma að því en ekki síður fyrir fyrirtækin sjálf að lenda í því að einn daginn kemur Vinnueftirlitið og tekur út öryggið og svo kemur ríkisskattstjóri næsta dag að huga að einhverju öðru og þriðja daginn kemur svo verkalýðsfélagið að biðja um starfsmannaskírteini. Það hlýtur að vera miklu betra, bæði fyrir fyrirtækin sjálf og þessa eftirlitsaðila, að vera í samstarfi þannig að hægt sé að koma og kanna þessa þætti alla.

Svo hefur okkur verið sagt það til að mynda af fulltrúum frá ríkisskattstjóra þegar þeir mæta á fundi hjá okkur í efnahags- og viðskiptanefnd að þessir svörtu sauðir eru auðvitað svolítið þekktir. Á því hljótum við að þurfa að taka. Við hljótum að þurfa að geta gripið til aðgerða (Forseti hringir.) sem miða að því að þessa aðila sé hreinlega hægt að stoppa. Ég vona að frumvarp varðandi kennitöluflakk og þau frumvörp sem hæstv. ráðherra nefndi áðan taki einmitt á slíkum málum.