149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:31]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún er gríðarlega góð. Ég er sammála þeim sem bent hafa á það hér að langstærstur hluti fyrirtækja vill gera vel. Það er þetta litla hlutfall, svörtu sauðirnir, sem við þurfum að ná til. Ég er líka sammála því að í flestum tilfellum er þar um skipulagða brotastarfsemi að ræða.

Það mikilvægasta er að í þeirri vinnu sem farið hefur fram hefur tekist að fá alla að borðinu. Allir þeir aðilar sem þurft hefur að fá að borðinu í gegnum árin eru komnir að hingað og eru sammála um meginútlínur þess hvernig við getum aukið og eflt eftirlit með þessum svörtu sauðum og komið í veg fyrir þetta. Það eru ekki bara stéttarfélög og ekki bara stofnanir eins og Vinnumálastofnun sem þarna eru, þarna er líka ríkisskattstjóri, lögreglan og fleiri aðilar sem þurfa að koma að málum.

Svolítið hefur verið spurt um hvort aukið fjármagn fylgi þessu. Allar þessar stofnanir hafa gríðarlegt bolmagn og eru með mjög marga starfsmenn, eins og t.d. Vinnumálastofnun. Með því að setja þetta pólitískt á stefnuskrána er hægt að forgangsraða í þá þágu að auka slagkraftinn þarna inni. Það gerir það líka að verkum að þegar menn vinna saman getur það skilað ótrúlegum árangri þegar út í eftirlitið er komið, eins og kemur vel fram í skýrslunni.

Eins og fram kom í nýlegu máli sem kom upp, hafa einstakar stofnanir ekki valdheimildir eða slagkraft til að taka á ákveðnum aðilum og þurfa þess vegna aðstoð annarra. Þá er það tekið inn á þennan samstarfsvettvang, sem er grundvöllurinn að því að ná utan um grófu brotin.

Ég bind mjög miklar vonir við það og ítreka það að sá hópur hefur þegar fundað, hann gerði það í síðustu viku og er núna að móta sér (Forseti hringir.) sýn og reglur um hvernig hann ætlar að vinna, vegna þess að saman getum við unnið á þessari meinsemd. Það getur það enginn einn, (Forseti hringir.) hvort sem það er sá sem hér stendur eða hv. þingmaður sem hóf þessa umræðu. Hann þekkir hana vel (Forseti hringir.) sex ár aftur í tímann og veit að sameinuð (Forseti hringir.) náum við langmestum slagkrafti til að stöðva þetta. Um það erum við, ég, hv. þingmaður og aðrir, sammála.