149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

umbætur á leigubílamarkaði.

617. mál
[16:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa fyrirspurn um umbætur á leigubílamarkaði. Það er rétt að ráðuneytið hefur, frá því að skýrsla starfshópsins um heildarendurskoðun á íslensku regluverki um leigubifreiðar kom út, unnið að mótun nýrrar löggjafar á þessu sviði. Það voru birt áform um lagasetninguna á samráðsgátt stjórnvalda síðasta sumar og þar komu athugasemdir sem unnið hefur verið úr síðan, þeim sem þá bárust.

Við höfum jafnframt fylgst með því að á öllum Norðurlöndunum hafa menn verið að breyta löggjöfinni, jafnvel þó að þeir hafi verið búnir að breyta henni í þá átt sem Noregur og Ísland eru að gera í dag. Við höfum fylgst með þeim breytingum. Sérstaklega hefur verið haft samráð við norsk samgönguyfirvöld sem vinna að sambærilegum breytingum á sinni löggjöf á þessu sviði, auk þess sem hliðsjón hefur verið höfð af þeirri vinnu sem nú fer fram í ráðuneytinu í tengslum við almenningssamgöngur. Ég kem aðeins inn á það síðar.

Í verkefnissáætlun ráðuneytisins vegna nýrra laga um leigubifreiðaakstur er gert ráð fyrir að drög að frumvarpi verði kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fyrir sumarið, eða snemmsumars, á næstu mánuðum, með það fyrir augum að framlagning þess geti orðið í þinginu fyrir lok nóvember á þessu ári. Breytingarnar sem unnið er eftir taka mið af niðurstöðum starfshópsins en jafnframt horfum við til þeirra breytinga sem menn eru að gera á þessu kerfi á Norðurlöndunum.

Varðandi spurninguna um hvort umbætur á leigubílamarkaði tengist stefnumótun í almenningssamgöngum eða hvort þessi mál séu ótengd er það alveg skýrt í mínum huga að þau eru tengd. Það hefur komið fram í bæði kynningu og umræðu um almenningssamgöngur að í þróun almenningssamgangnakerfisins geta verið svæði þar sem nauðsynlegt er að stefnumótun á sviði leigubifreiðaaksturs og stefnumótun í almenningssamgöngum á landsvísu taki mið hvor af annarri. Það er nauðsynlegt að í löggjöf á sviði farþegaflutninga sé gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þar sem aðstæður bjóða ekki upp á reglubundnar almenningssamgöngur á hefðbundnu formi, t.d. vegna þess að þar búi fáir, sé svigrúm til að fylla upp í skarðið með því að tryggja aðgengi að leigubifreiðum. Eins hefur verið nefnt hvort deilihagkerfið muni taka á þessu, þ.e. deilibílar eða pantanaþjónusta þar sem leigubílar gætu sinnt þeirri þjónustu og einmitt á þeim svæðum þar sem búa fáir og stórir almenningsvagnar eru óhagkvæmir og myndu ekki skila tilætluðum árangri og eiga þar af leiðandi einfaldlega ekki við.

Þannig að svarið er já, það skiptir máli og málin eru mjög tengd, þjónusta leigubifreiða og almenningssamgangna.